Meðal annars er rætt við Einar Örn Benediktsson tónlistar- og myndlistarmann um sýninguna Auglýsingu sem opnuð verður við Laugaveg á morgun. Fjallað verður um fyrirbærið polymath, eða fjölfræðinga, þá sem skara fram úr á fleiri en einu sviði eða jafnvel fleiri en tveimur. Björn Þór Vilhjálmsson rýnir í skáldsöguna Delluferðina eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Snæbjörn Brynjarsson fjallar um Reykjavík Dancefestival, hátíð sem fram fór í síðustu viku. Og bók vikunnar að þessu seinni er Undir fána lýðveldisins: Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni eftir Hallgrím Hallgrímsson. Hún kom fyrst út árið 1941 en var endurútgefin árið 2019. Í þeirri endurútgáfu bjuggu Einar Kári Jóhannsson og Jóhannes Helgason frumtextann til prentunar og rituðu, ásamt Styrmi Dýrfjörð, eftirmála og neðanmálsgreinar með skýringum. Í bókinni segir Hallgrímur frá því þegar hann barðist með alþjóðasveitum kommúnista í spænsku borgarastyrjöldinni sem stóð frá árinu 1936 til ársins 1939. Hlustendur heyra í þættinum í dag brot úr viðtali við dóttur Hallgríms, Höllu Mjöll Hallgrímsdóttur, sem tekið var fyrr á þessu ári.
Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson.