Í Víðsjá dagsins verður rætt við Daníel Bjarnason tónskáld um tónverk hans From Space I saw Earth sem frumflutt verður í Los Angels 24. október. Verkið er samið fyrir fílharmoníusveitina í Los Angeles í tilefni að hundrað ára afmæli hennar en þrír núlifandi aðalhljómsveitarstjórar sveitarinnar munu stjórna flutningi þess, þeir Gustavo Dudamel, Esa Pekka Salonen og Zubin Mehta.
Tilvist rostunga á Íslandi á forsögulegum tíma og hvarf þeirra um og upp úr landnámi hefur löngum valdið fræðimönnum heilabrotum. Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur og forstöðumaður Fornleifafræðistofunnar, munu á rannsóknarkvöldi Félags íslenskra fræða á morgun greina frá nýbirtum niðurstöðum fjölþjóðlegrar rannsóknar á rostungum við Íslands strendur á forsögulegum tíma og fram yfir landnám, sem Náttúruminjasafn Íslands fór fyrir. Hilmar verður gestur Víðsjár í dag.
Bók vikunnar á Rás 1 er Sálumessa eftir Gerði Kristnýju en hlustendur Víðsjá heyra Gerði segja frá bókinni í þætti dagsins og lesa úr henni. Snæbjörn Brynjarsson, annar tveggja leiklistargagnrýnenda Víðsjár, segir hlustenum frá upplifun sinni á sýningunni Shakespeare verður ástfanginn í Þjóðleikhúsinu.
Umsjón Eiríkur Guðmundsson og Guðni Tómasson.