Óðinn Jónsson nefndi þá "góðkunningja Heimsgluggans", Donald Trump, Boris Johnson og Silvio Berlusconi sem allir hafa verið í fréttum í vikunni. Þeir voru til umræðu í Heimsglugga dagsins er Þórunn Elísabet Bogadóttir og Vera Illugadóttir ræddu við Boga Ágústsson um erlend málefni.
Trump hefur verið ákærður fyrir brot á lögum um njósnir og meðferð trúnaðargagna. Ákæran er í 37 liðum. Hann er sakaður um að hafa tekið hundruð trúnaðargagna með sér úr Hvíta húsinu og geymt á heimili sínu í Mar-a-Lago í Flórída. William Barr, sem var dómsmálaráðherra í stjórn Trumps, telur ekki leika vafa á sekt Trumps. Bogi telur samt ólíklegt að hann verði sakfelldur.
Bresk þingnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi blekkt breska þingið vísvitandi þegar hann neitaði því að reglur um samkomutakmarkanir hefðu verið brotnar í veisluhöldum í Downing-stræti. Skýrslan hafði ekki verið birt þegar Vera, Þórunn og Bogi ræddu málið. Johnson sagði af sér þingmennsku eftir að hann fékk að sjá skýrsluna. Yfirlýsingar hans þá voru mikill reiðilestur og hann sakaði þingnefndina um óheiðarleika og kallaði hana ,,kangaroo court".
Vandræði SNP, Skoska þjóðarflokksins, voru einnig til umræðu. Nicola Sturgeon, fyrrverandi fyrsti ráðherra, var handtekin og yfirheyrð vegna rannsóknar á fjármálum flokksins.
Að lokum var Silvio Berlusconi til umræðu. Hann var borinn til grafar í Mílanó í gær. Við heyrðum Meno male che Silvio c'è, lofsöng frá 2010 um Berlusconi sem var kosningastef hans í þingkosningunum. Í textanum segir meðal annars: "Lifi Ítalía sem hefur kosið að trúa á þennan draum, forseti við stöndum með þér, guði sé lof fyrir Silvio".