Kosningar verða í Tyrklandi í maí og jarðskjálftarnir skelfilegu og afleiðingar þeirra kunna að hafa áhrif. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt yfirvöld fyrir að bregðast seint við en sjálfur segir Erdogan forseti að allt hafi verið gert sem var mögulegt og í heimsókn á jarðskjálftasvæðunum í gær sagði hann að yfirvöld hefðu fullkomna stjórn á ástandinu. Engu að síður er fólk á hamfarasvæðunum yfirvöldum reitt fyrir slæleg viðbrögð.
Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu þetta i Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1. Þeir voru einnig á sagnfræðilegum nótum, ræddu listsköpun Neandertalsmanna, fjölluðu um ,,stríð" Dana og Spánverja sem danska þjóðminjasafnið rifjaði upp þegar þjóðirnar mættust í HM í handbolta. Það ,,stríð" stóð í 172 ár, friður var ekki saminn fyrr en 1981. Þeir ræddu einnig um Maríu Stúart Skotadrottningu, Mary Queen of Scots, sem var hálshöggvin 1587 - fyrir 436 árum. Í gær, 8. febrúar, var tilkynnt að tekist hefði að ráða dulmál á 57 bréfum sem hún skrifaði í tveggja áratuga fangavist sinni. Sagnfræðingar lýsa þessu sem miklum tíðindum, í bréfunum kvartar María yfir einangrun sinni og lýsir áhyggjum af velferð Jakobs sonar síns. Hann varð Jakob 6. Skotakonungur og eftir dauða Elísabetar fyrstu Englandsdrottningar varð hann jafnframt Jakob fyrsti, konungur Englands.
Spjallið endaði á undurfögru lagi Fairport Convention um Maríu Skotadrottningu. Lagið heitir Fotheringhay eftir kastalanum þar sem María var fangelsuð og tekin af lífi.