Þáttaskil urðu í sögu Norður-Írlands þegar friðarsamkomulag var undirritað á föstudaginn langa 1998. Það er jafnan kennt við daginn þegar það var undirritað og kallað Good Friday Agreement. Friðarsamkomulagið batt að langmestu leyti enda á áratuga blóðug átök sambandssinna og lýðveldissinna, eða mótmælenda og kaþólikka. Átökin, sem hófust rétt fyrir 1970, kostuðu þúsundir mannslífa.
Sólveig Jónsdóttir, stjórnmálafræðingur og rithöfundur, þekkir vel til á Norður-Írlandi. Hún bjó á Írlandi um skeið, lauk meistaranámi í þjóðernishyggju og þjóðernisátökum frá Edinborgarháskóla í Skotlandi og hefur starfað sem blaðamaður og pistlahöfundur.
Sólveig gerði tvo útvarpsþætti í fyrra ásamt Gunnari Hanssyni um blóðuga sunnudaginn í Derry eða Londonderry. Þá voru fimmtíu ár frá einum afdrifaríkasta atburði The Troubles, óaldarinnar. Þann 30. janúar 1972 efndu kaþólikkar til friðsamlegrar mannréttindagöngu í borginni þar sem þeir kröfðust aukinna borgaralegra réttinda og andmæltu lögum sem höfðu tekið gildi hálfu ári áður og heimiluðu yfirvöldum að fangelsa fólk um óákveðinn tíma, án réttarhalda.
Við ræddum við Sólveigu í Heimsglugganum um hvernig til hefði tekist á Norður-Írlandi, ástandið þar nú, stjórnmál, trúarbrögð, mannleg samskipti og framtíðina.