Múte B. Egede, formaður grænlensku landstjórnarinnar, segir mikilvægt að lítil hernaðarspenna verði áfram á norðurslóðum. Egede segir Grænlendinga vera að móta stefnu í öryggismálum og að mikilvægt sé að hlustað sé á fólkið sem býr á heimskautasvæðunum. Hann segir augljóst að allar aðstæður í öryggis- og varnarmálum hafi gjörbreyst við innrás Rússa í Úkraínu í febrúar.
Egede segir að raunar hafi verið ljóst fyrir innrásina að heimskautasvæðið veki sífellt meiri áhuga og stórveldi séu farin að skipta sér af málum þar. Nauðsynlegt sé að efla viðbragðsmátt á Grænlandi. Hann segir að Grænlendingar og Danir hafi gert samkomulag um þjálfun viðbragðsliða á Grænlandi, þannig fengi ungt fólk menntun til viðbragða við ógn en grænlenska ríkisstjórnin ætlaði að marka nýja stefnu í öryggis- og varnarmálum.
Danska stjórnin gaf út í vor nýja skýrslu, Dansk sikkerhed og forsvar til 2035, þar sem augunum var ekkí síst beint að öryggis- og varnarmálum á norðurslóðum, við Færeyjar og Grænland. Í viðtali við Carsten Fjord-Larsen, flotaforinga og yfirmann danska flotans kom fram að nauðsynlegt væri að endurnýja skipin sem eiga að annast eftirlit á svæðinu. Þetta eru skip sem eru Íslendingum að góðu kunnug, Thetis, Triton, Hvítabjörnin og Vædderen, en þau eru tíðir gestir í Reykjavík, taka vistir og skipta um áhafnir á Íslandi.