Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson fjölluðu um erlend málefni að venju á fimmtudagsmorgni í Heimsglugganum. Fyrst ræddu þeir óvænta tilkynningu Jacindu Ardern um að hún ætlaði að láta af embætti forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Þá ræddu þeir fund sem verður á morgun í Þýskalandi meðal fulltrúa þeirra ríkja sem hafa sent vopn eða aðstoð til Úkraínu. Búist er við að tilkynnt verði að Úkraínumenn fái þungavopn eins og fullkomna skriðdreka frá vestrænum ríkjum.
Björn Þór og Bogi ræddu einnig deilu sem komin er upp á milli stjórnanna í Lundúnum og Edinborg eftir að breska stjórnin tilkynnti að skosk lög um kynrænt sjálfræði fengju ekki staðfestingu konungs. Breska stjórnin segir lögin ganga í berhögg við bresk jafnréttislög, skoska stjórnin segir það fyrirslátt og að Lundúnastjórnin sé að efna til ?menningarstríðs?. Skoska stjórnin bendir á að Lundúnastjórnin hafi haft ótal tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum þegar málið var til meðferðar í skoska þinginu, leitað hafi verið eftir umsögnum mjög margra en ekkert heyrst frá Westminster fyrr en nú.
Í lokin var rætt um mögulegan titil væntanlegrar minningarbókar Borisar Johnsons um forsætisráðherratíð hans. Blaðamaðurinn Henri Mance á Financial Times bað um tillögur í tísti og þúsundir hafa brugðist við og flestar tillögurnar hæðast að Johnson fyrir lygar og óheiðarleika.