Salma al-Shehab hefur verið dæmd í 34 ára fangelsi í Sádi-Arabíu fyrir að endurtísta umfjöllun um mannréttindamál í landinu. Al-Shebab var handtekin við komuna til landsins frá Bretlandi þar sem hún var í doktorsnámi við háskólann í Leeds. Þessi harði dómur er til marks um hversu hart yfirvöld í landinu taka á allri mannréttindabaráttu undir forystu krónprinsins Mohammeds bin Salmans. Hann hefur þó lýst yfir að hann vilji breyta landinu og færa í átt að nútímanum en tekur samt af mikilli grimmd á allri andstöðu og má minnast þess að sádiarabískir leyniþjónustumenn myrstu blaðamanninn Jamal Kashoggi í Tyrklandi fyrir fjórum árum. Á sama tíma reyna Sádi-Arabar að hvítþvo sig á alþjóðavettvangi með því að ausa fé í íþróttaviðburði eins og röð golfmóta og þeir hafa einnig keypt enska knattspyrnufélagið Newcastle.
Þetta var meðal þess sem Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu við Boga Ágústsson í Heimsglugga vikunnar. Þau ræddu einnig stöðuna í sænskum stjórnmálum rúmum þremur vikum fyrir kosningar. Þar stefnir í mjög spennandi kosningar. Lítil spenna virðist hins vegar um leiðtogakjör í breska Íhaldsflokknum þar sem allt bendir til að Liz Truss beri sigurorð af Rishi Sunak.
Þá var tveggja manna minnst í lokin með einu lagi. Þetta eru Elvis Presley og þýski leikstjórinn Wolfgang Petersen sem lést í vikunni. Í fyrradag voru 45 ár frá dauða Presleys.
Petersen notaði þjóðlag frá Schwaben í Suðvestur-Þýskalandi, Muss i denn í kvikmynd sinni Das Boot. Textinn er á svabískri þýsku, muss i denn, muss i denn zum Städtele hinaus; verð ég þá að fara og skilja þig eftir, Und du, mein Schatz, bleibst hier? Það var mjög vinsælt að syngja lagið í upphafi ferðalaga og leiðangra, ekki síst meðal sjómanna, bæði í kaupskipaflotanum og herflotanum. Þannig er það notað í Das Boot.
Lagið er meðal þekktustu þjóðlaga Þjóðverja, og það er til í mjög mörgum útgáfum, Marlene Dietrich, Mireille Mathieu og Nana Mouskouri hafa flutt það en þekktasta útgáfan í hinum enskumælandi heimi er án efa Wooden Heart sem Elvis Presley söng 1960 í kvikmyndinni G.I. Blues, sem fjallar um bandaríska hermenn í Þýskalandi. Presley var einmitt í hernum þar þegar hann gegndi tveggja ára herskyldu frá 1958-60. Lagið fór víða í efsta sæti á vinsældalistum.