Það kæmi á óvart ef það þyrfti að segja einhverjum í dag að reykingar væru ekki góðar fyrir heilsu okkar, vægast sagt. En niðurstöður eru forvitnilegar úr nýlegri bandarískri langtíma rannsókn sem kannaði afleiðingar reykinga hjá 25 þúsund bandaríkjamönnum á aldrinum 17 til 93gja ára. Mannlegi þátturinn hitti Karl Andersen hjartalækni og fékk hann til að fara yfir niðurstöðurnar.
Við forvitnumst um nýtt verk í Borgarleikhúsinu á nýju sviði fyrir sviðshöfunda, Umbúðalaust sem er uppi á þriðju hæð í Borgarleikhúsinu, Hópurinn sem stendur að sýningunni samanstendur af tveimur sviðshöfundum, textílhönnuði og félagsfræðingi. Verkið sjálft heitir Kartöflur og er rannsóknarferðalag hópsins um kartöflur á íslandi, fólkið á bakvið þær og skoðanir þeirra. Í rannsóknarferðalaginu erum við búin að kafa í líf óþekkts kartöflubónda, Helgu Gísladóttur, sem var rangnefnd í sögubókunum árum saman, þrátt fyrir að hafa ræktað upp sitt eigið kartöfluyrki á miðri 20. öld, hina sívinsælu kartöflutegund Helguna. Þau Hallveig Kristín Eiríksdóttir og Birnir Jón Sigurðsson komu í þáttinn og sögðu frá.
Elísabet Indra Ragnarsdóttir vann í 14 ár í útvarpi, hér á Rás 1, hefur kennt í Listaháskólanum og nú hefur hún fært sig úr líklega einni minnstu tónlistar- og menningarstofnun á Íslandi, Mengi, yfir í líklega þá stærstu, Hörpu, þar sem hún er starfandi dagskrárstjóri tónlistar. Við forvitnuðumst um hennar starf og gríðarlega verðmæta fiðlu í þættinum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON