MANNLEGI ÞÁTTURINN ÞRIÐJUDAGUR 01.okt 2019
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG DAGUR GUNNARSSON
Allur ágóði af sölu Bleiku slaufunnar rennur til Krabbameinsfélagsins sem býður upp á fjölþætta þjónustu án endurgjalds, svo sem einstaklingsviðtöl, sálfræðiráðgjöf, stuðningshópa, námskeið, fræðslu og ráðgjöf um réttindi og styrki. Og föstudaginn 11. október á að mála bæinn bleikan því þá er ætlunin að sýna þeim konum sem takast á við krabbamein samhug og stuðning. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins kemur til okkar hér á eftir.
Við förum í smá leiðangur, bregðum okkur út úr hljóðverinu, út í hinn stóra heim og tökum hús á manni sem rekur verslun á Laugavegi í hjarta Reykjavíkur en það er líka nafnið á versluninni, Hjarta Reykjavíkur. Þar stendur Jóhann Ludwig Torfason vaktina í verslun og hönnunarverkstæði sem býður upp á ýmsan listrænan varning sem hann býr til á staðnum. Við ræðum um hitt og þetta, listina, lífið og umferð. Umferð bílanna upp og niður Laugaveginn, í samkeppni við gangandi vegfarendur, ferðamenn og lunda. Það er ýmislegt sem ber á góma í þessu viðtali við hann Jóhann Ludwig.
Anna Björg Ingadóttir tók í haust við skólastjórastöðu í Reykhólaskóla -
þar var áður heimavist sem nú er aflögð. Kristín okkar Einarsdóttir hitti Önnu Björgu og ræddi
við hana um skólastjórastarfið en líka um andaglas sem stundað var af
miklum áhuga á gömlu heimavistinni.