Úr Vör er nýtt vefrit sem fjallar um hvernig fólk á landsbyggðinni notar skapandi aðferðir til að leita lausna. Nýsköpun, list, menningu og frumkvöðlastarf. Greinar og pistlar af öllu landinu, og á síðunni er svokallað greinakort, þar gefur að líta Íslandskort og eru umfjallanir og efni síðunnar merktar inn á kortið. Við fengum Aron Inga Guðmundsson ritstjóra í þáttinn.
Íslandsmeistaramótið í málmsuðu fór fram á Akureyri um þarsíðustu helgi og það vakti athygli að allir ellefu keppendurnir starfa við málmsuðu á Akureyri. Við heimsóttum Íslandsmeistarann André Sandö í stálsmiðjuna Útrás ehf og þangað kom einnig formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri Jóhann Rúnar Sigurðsson en hann segir afar mikilvægt að hlúa að málmsuðu með því að halda svona mót því það vekji athygli á greininni og tækifærin séu mörg.
Á næstum dögum eru að koma út tvær bækur hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi, þær heita Send í sveit, þetta var í þjóðarsálinni og Send í sveit, súrt, saltað og heimabakað. Eins og nöfn bókanna gefa til kynna fjalla þær um sama efni en með ólíkum hætti. Hér er á ferðinni afurð stórrar rannsóknar á siðnum að senda börn í sveit og fór hluti rannsóknarinnar fram á Ströndum. Ritstjórar bókanna hjónin Jónína Einarsdóttir og Geir Gunnlaugsson komu á Strandir til að kynna efni bókanna og Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, settist niður með Jónínu og ræddi við hana um rannsóknina og bækurnar.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON