Undanfarin tvö ár hafa skólar átt fullt í fangi með að reyna að halda sjó vegna heimsfaraldursins. Fagráð eineltismála hefur lýst yfir áhyggjum af því að eineltismál hafi mátt sitja á hakanum á þessu tímabili. Að samkomutakmarkanir hafi takmarkað þær lausnir sem skólar hafa haft í erfiðum samskipta- og eineltismálum eins og t.d námskeið, fyrirlestra, ráðgjöf, sértæka bekkjarfundi og viðtöl. Við fengum þær Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur sálfræðing og Ólöfu Helgu Þór, náms- og starfsráðgjafa, en báðar eru þær í fagráðinu, til að koma í þáttinn og segja okkur frá stöðu mála í þessum mikilvæga málaflokki.
Svo kom í þáttinn Jan Alexander van Nahl dósent í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Hann er fæddur í Þýskalandi en hefur verið búsettur hér á landi í nokkur ár og náð góðum tökum á málinu en hann er með doktorsgráður í norðurlandafræði, fornleifafræði og norrænum fræðum frá Háskólanum í Munchen. Meðal útgefinna verka hans eru tvær bækur um Snorra Sturluson, bók um konungasögur og kennslubók í norrænum miðaldafræðum. Hann sagði okkur í þættinum frá rannsókn sem hann vinnur að þessa dagana og snýr að því að kortleggja myrkrið í Íslendingasögunum. Hversu áberandi er myrkrið og hvaða áhrif hefur það á sögusvið og framvindu atburðarrásarinnar í þessum sögum?
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Sverrir Norland, rithöfundur, þýðandi, útgefandi, fyrirlesari, sjónvarpsmaður, útvarpsmaður, hlaðvarpsgerðarmaður, sendill, lagerstarfsmaður, handritshöfundur, kennari, tveggja barna faðir, íslenskur skattgreiðandi og bjartasta von Hlíðaskóla 2001. Við fengum að vita hvaða bækur hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG ÞORGERÐUR ÁSA AÐALSTEINSDÓTTIR