Hvað er meira við hæfi á fullveldisdeginum en að klæðast upphlut? Edda Björg Eyjólfsdóttir leikkona kom sjálfri sér, og mögulega öðrum, á óvart með því að skrá sig á námskeið hjá Heimilisiðnaðarfélaginu í að sauma upphlut og það var nákvæmlega ekkert einfalt í því ferli. Andvökunætur og saumavinna fram á miðja nótt, og svo við vitnum í hennar eigin orð úr facebookfærslu: Eftir að hafa farið í gegnum allan tilfinningaskalann, misst sjálfstraustið og fundið það aftur, öðlast innri frið, farið í andlegt ferðalag og komið mér all verulega á óvart, eftir að hafa margstungið mig, lært að kappmella, handsaumað hnappagöt, hexað, saumað blindsaum, aftursting og lært að nota almennilega fingurbjörg var verkefnið klárað í síðustu viku. Edda Björg kom í þáttinn í dag.
Tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson og kvikmyndaleikstjórinn Ágúst Guðmundsson sömdu saman jólalagið Góðan dag og gleðileg jól árið 1984. Síðan hefur lagið legið nánast óheyrt þangað til nýlega þegar Ágúst fann það á hljóðsnældu uppi á háalofti hjá sér. Nú hefur það verið fært á stafrænt form og er komið inn í kerfi okkar hér á RÚV. Við fengum þá félaga til að segja okkur frá þessum merka fundi og svo auðvitað spiluðum við lagið í kjölfarið.
Hitamælar sýndu um 20 stiga frost á Suðurlandi snemma í morgun. Þetta eru svo sem engin kuldamet en desember heilsar með hressandi frosti. Við hringdum í Baldur Ólafsson björgunarsveitarmann á Hvolsvelli og heyrðum hvort það væri hrollur í fólki.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON