Föstudags- og aðfangadagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Ómar Ragnarsson. Hann þarf vart að kynna, hann hefur skemmt Íslendingum í yfir 60 ár, sungið, dansað, samið ógrynni dægurlagatexta og fjölda laga. Hann var frétta- og dagskrárgerðarmaður hér á RÚV í áratugi og flaug og keyrði um allt land í efnisleit. Hann er náttúruverndarsinni og rallmeistari og svo var hann auðvitað meðlimur í Sumargleðinni. Nú er einmitt komin út bókin Af einskærri Sumargleði, sem Ómar skrifaði, þar sem hann fer yfir sögu Sumargleðinnar, sem hann stofnaði ásamt Ragga Bjarna, auk þess sem Ómar rifjar upp upphaf ferils síns. Við spjölluðum við hann um jólin, minningar um jólin í æsku, jólaskemmtanir, Gáttaþef, nýju bókina og fleira í jólaspjalli við Ómar í þættinum í dag.
Við fórum svo í heimsókn suður í Garðabæ, nánar tiltekið í Vídalínskirkju, og hittum séra Jónu Hrönn Bolladóttur sem undirbýr predikun fyrir aðfangadagsmessu kl.18. Þetta er stærsta messa ársins, segir Jóna Hrönn, en hún hefur verið síðustu vikur að undibúa hana og ákveða inntak ræðunnar.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
P.s. að beiðni birtum við hér textann sem Ómar Ragnarsson samdi við lagið Christmas Time is Here eftir Vince Guaraldi sem spilað var í þættinum:
Jólastemning
Jólastemning er
yfir öllu hér,
gleðitíð, sem börnin blíð
nú biðja'að veitist sér.
Snjókorn blærinn ber.
Boðskap flytja mér
dýrðarsöngvar dægrin löng,
sem dilla mér og þér.
Sögur, ljós og ljóð,
ljúft við tónaflóð.
Mitt í dróma myrkurs ljómar
minninganna flóð.
Jólastemning ber
birtu, ósk mín er
að alla tíð, já ár og síð
allt árið ríki'hún hér, -
að einlæg gleði'og ástargeð
æ gefist mér og þér.
(Ómar Ragnarsson)