Í upphafi árs er dæmigert að líta til baka og svo líka fram á veginn, hvað má betur fara í okkar lífi og hverju viljum við breyta? Við jafnvel strengjum áramótaheit, viljum koma okkur í form eftir hátíðirnar og hátíðarmatinn, nú skal dæminu snúið við. Við fengum Arnar Pétursson, margfaldan Íslandsmeistara í langhlaupum og höfund Hlaupabókarinnar, til að ráðleggja okkur og hlustendum hvernig er best að snúa sér í slíku. Hvað ber að varast, hvað er vænlegt til árangurs og hvernig er best að byrja í slíku skipulagi? Arnar var með fullt af góðum ráðum í þættinum í dag.
Ástvaldur Traustason píanóleikari og stofnandi tónlistarskólans Tónheima kom í þáttinn í dag. Margir kannast við hann vegna starfa hans á tónsviðinu enda hefur hann komið víða við, meðal annars í Milljónamæringunum, Sálinni hans Jóns míns og sem harmónikkuleikari í hljómsveitinni Mandólín, auk þess sem hann stofnaði tónlistarskólann Tónheima. Við hinsvegar vorum ekki að ræða tónlistina heldur annað hugðarefni Ástvaldar, sem hefur tekið upp millinafnið Zenki og er stofnandi samtakanna Zen á Íslandi. Hann hefur lokið kennaraþjálfun í Japan og er viðurkenndur kennari í Soto Zen. Við ræddum við Ástvald um Zen hugleiðslu og vegferð hans á þessari andlegu braut.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Brynja Hjálmsdóttir ljóðskáld. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN: ÞORGERÐUR ÁSA AÐALSTEINSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON