Í dag er kvenréttindadagurinn, hátíðisdagur þar sem við minnumst þess að fyrir 104 árum fengu konur á Íslandi, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Stórt skref í kvenréttindabaráttunni stigið þann dag.
Karlar fá því ekki mikið pláss í þætti dagsins, auðvitað verður ekki alveg hægt að sniðganga þá, það er erfitt í okkar heimi, til dæmis verður flutt tónverk eftir karlmann í lok þáttarins, ég vona að það fari ekki fyrir brjóstið á neinum.
En við heyrum af ýmsum konum, meðal annars einni sem aldrei fær að hvílast heldur tekur á móti sálum á leið sinni í ljósið. Guðrún Rannveig Stefánsdóttir kemur og segir frá ljóðabálki sínum sem hún orti um Guðrúnu Oddsdóttur, vökukonunni í Hólavallakirkjugarði, sem kemur út í dag, með formála og eftirmála eftir Sólveigu Ólafsdóttur.
Einnig heyrum við af Elísabetu Jónsdóttur frá Grenjaðarstað í Aðaldal sem var ein af þeim fyrstu til að fá lög sín birt á prenti. Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir, tónlistarkona, segir Gígju Hólmgeirsdóttur aðeins af hennar sögu, en í dag - í tilefni kvenréttindadagsins - verður hátíðardagskrá henni til heiðurs í Hofi á Akureyri.
Í dag er kvenréttindadagurinn þar sem við minnumst áfanga í sögu kvenréttindabaráttunnar, en í gær var stigið stórt skref í annarri baráttu, þegar lagafrumvarp um kynrænt sjálfræði var samþykkt á Alþingi. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78, lítur við til að ræða þetta nýja frumvarp og þýðingu þess.
Tónlist:
Farfuglarnir eftir Elísabetu Jónsdóttur
Brúður söngvarans eftir Elísabetu Jónsdóttur
Katia og Marielle Labeque spila síðasta þáttinn úr verkinu Four Movements for Two Pianos eftir Philip Glass