Við fengum til okkar Bernd Ogrodnik, einn af fremstu brúðuleikhúsmönnum samtímans. Auk þess að semja flest sín verk og leika, þá býr hann til allar brúðurnar í sýningunum, gerir leikmyndir og semur og flytur tónlist. Hann hefur gert brúður af ýmsu tagi fyrir leikhús víða um heim, sem og fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Og nú er hann að vinna sína persónulegustu brúðusýningu til þessa, Brúðumeistarann , nýtt leikrit fyrir fullorðna sem verður sýnt á Brúðuloftinu í Þjóðleikhúsinu. Í verkinu tekst hann á við knýjandi spurningar um fortíðina og sögu heimalands hans, og harmræna atburði sem hafa mótað foreldra hans og hann sjálfan.
Við ræddum við ungt par, Ísak Hilmarsson og Grétu Maríu Birgisdóttur, sem er að vinna að verkefni sem þau kalla Fæðingarsögur feðra. Verkefnið snýr að því að fá fólk til þess að ræða um upplifun og þátttöku feðra í fæðingum. Hún er ljósmóðir, hann er verkefnastjóri í hugbúnaðarfyrirtæki og saman eiga þau eina dóttur. Þau biðja feður um að skrifa fæðingarsögurnar niður og svo er ætlunin að gefa sögurnar út í sérstakri bók.
Síðastliðið haust hóf nýr tónlistarkennari Bragi Þór Valsson störf við Tónskóla Hólmavíkur. Bragi var þá nýfluttur frá Suður-Afríku ásamt konu sinni Cristina Van Deventer. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Braga í tónskólanum og þau ræddu um lífið í Afríku og á Hólmavík.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON