Heilbrigði barna og unglinga í Bústaðahverfi er meginþema verkefnisins Betri Bústaðir. Formenn foreldrafélaga grunnskóla Bústaðahverfis halda fund um forvarnir í hverfinu í kvöld undir yfirskriftinni, Hvaðan fær þitt barn orkuna sína? Fjallað verður um svefn ungmenna, neyslu gos- og orkudrykkja og rafrettureykingar. Þessir þættir eru teknir fyrir í þessu forvarnarverkefni sem kallast Betri Bústaðir þar sem megináherslu er lögð á góðan nætursvefn barna og unglinga. Við fengum þau Dr. Ernu Sif Arnardóttur, svefnsérfræðing og Harald Sigurðsson, framkvæmdastjóra Krinlgumýrar, Frístundamiðstöðvar í hverfinu, í þáttinn til að fræða okkur um þetta verkefni.
Steinn Kárason garðyrkjufræðingur kom í þáttinn í dag, en nú er tíminn til að huga að ýmsu sem kemur að garðrækt. En hann mun halda nokkra fyrirlestra og námskeið á næstunni, til dæmis námskeiðið „Sáning og ræktun krydd- og matjurta“ og„Orsakir og afleiðingar myglusveppa“. Við fræddumst um þessi mál hjá Steini.
Á söfnum landsins er starfrækt viðamikið fræðslustarf fyrir allan almenning. Á Gerðarsafni í Kópavogi, sem stofnað var til heiður listakonunni Gerði Helgadóttur, er starfrækt fræðslurými þar sem sköpunarkraftur og tilraunastarfsemi listakonunnar er höfð að leiðarljósi, en fræðslurýmið heitir einfaldlega Studio Gerðar. Brynja Sveinsdóttir, verkefnastjóri Gerðarsafns, kom í þáttinn og sagði frá starfinu.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GÍGJA HÓLMGEIRSDÓTTIR