Guðrún Birna le Sage de Fontenay er GlóMotion heilræktarkennari, ropeyogakennari, markþjálfi, fimleikaþjálfari og tveggja barna móðir. Hún er að fara af stað með námskeið fyrir nýbakaða foreldra og ungbörn. Þar mun hún tvinna saman líkamlega og andlega uppbyggingu við fræðslu um virðingarríkt, vakandi uppeldi. Tímarnir eru líka hugsaðir sem tengslastund fyrir foreldra sem tengja við virðingarríkt, vakandi uppeldi og vilja tengjast öðrum foreldrum í sömu hugleiðingum. Guðrún Birna kom í þáttinn í dag.
Bókin 2052 - Svipmyndir úr framtíðinni er samansafn af smásögum eftir 25 höfunda, sem allar eiga það sameiginlegt að gerast á Íslandi árið 2052. Upphafsmaður bókarinnar og ritstjóri er Hjörtur Smárason. Hann segir að markmið bókarinnar að hvetja fólk til að velta því fyrir sér hvert Ísland er að stefna og hvaða afleiðingar ákvarðanir sem við tökum í dag geta haft eftir rúm 30 ár. Höfundarnir 25 eru fjölbreyttur hópur úr mörgum stéttum samfélagsins, listafólk, stjórnmálafólk, fræðifólk, tæknimenntað fólk, nemendur, fólk úr viðskiptalífinu og fleiri. Við hringdum í Hjört í þættinum og fengum að vita meira um þessa bók og framtíðina, en hann segist vera framtíðargrúskari og rekur eigið ráðgjafafyrirtæki í Kaupmannahöfn.
Við fengum póskort frá Spáni, frá Magnúsi R. Einarssyni í dag. Í því sagði hann frá strandlífinu í Alicante, sem er að verða liflegt. Hann sagði einnig frá hinu sérkennilega máli með Franco, fyrrum einræðisherra, en mikil deila hefur staðið hér í meira en ár hvað gera skuli við jarðneskar leifar hans. Magnús sagði líka frá því hvernig tekist hefur að draga úr loftmengun í Madrid, batnandi atvinnuhorfum og Netflix er búið að opna Casa Netflix rétt fyrir utan höfuðbogina og þar verður miðstöð allrar framleiðslu fyrirtækisins í Evrópu.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON