Á laugardaginn fór fram hæfileikakeppnin Sober got talent. Eins og nafnið á keppninni gefur til kynna þá var þetta skemmtun án áfengis og annarra vímuefna. Sunna Kristinsdóttir einn skipuleggjanda keppninnar kom í þáttinn og segir okkur frá, en hún glímdi við fíknivanda og segir að það sé ekki nóg af afþreyingu í boði fyrir ungt fólk sem vill skemmta sér án áfengis og vímuefna, en hún er með fleiri viðburði í undirbúningi. Með Sunnu kom Bjartur Dalberg Jóhannsson, en hann rappaði í keppninni á laugardaginn. Í lokin heyrðum við Bjart rappa í beinní útsendingu og enduðum á lagi sem Sunna söng á laugardaginn.
Þunglyndi hefur áhrif á alla tilveru okkar: Líðan, svefn, matarlyst og orku, hugsun og gjörðir, minni, áhuga og tengsl við aðra. Öll verðum við döpur öðru hverju og margir kljást við þunglyndi á lífsleiðinni. Í nýrri bók Náðu tökum á þunglyndi er rakið hvernig má ná meiri og varanlegri árangri með því að beita aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og núvitundar til að rjúfa vítahring þunglyndisins. Fjallað er um einkenni og orsakir þunglyndis, hvernig við getum orðið virkari, hugað betur að eigin þörfum og haft áhrif á hugarfar. Höfundur bókarinnar er Sóley Dröfn Davíðsdóttir forstöðusálfræðingur Kvíðameðferðarstöðvarinnar og hefur áður sent frá sér bækurnar Náðu tökum á kvíða, fælni og áhyggjum og Náðu tökum á félagskvíða. Sóley kom í þáttinn í dag.
Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, heimsótti kríuvarp og virti fyrir sér þennan fallega og flugfima fugl. Að því loknu brá hún sér til Hafdísar Sturlaugsdóttur í Húsavík við Steingrímsfjörð sem tekið hefur þátt í fuglatalningaverkefni á vegum Náttúrufræðistofnunar.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR