Page Break
MANNLEGI ÞÁTTURINN MIÐVIKUDAGUR 13.MARS 2019
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
Myndlistarkonan Josefina Morell hefur búið á Giljum í Hálsasveit í Borgarfirði síðan 1998, en hún vann fyrir sér fyrstu árin við hestatamningar en er nú skólabílstjóri og rekur hestaleigu ásamt manni sínum Einari. Josefina opnar sýningu í Hallsteinssal í Safnahúsinu í Borgarnesi á föstudaginn undir heitinu Litir Borgarfjarðar. Í myndlistinni hefur hún gaman af að prófa sig áfram með allskonar efnivið og leggur áherslu á að vinna sem mest með náttúruleg efni, gjarnan eitthvað sem talið er hálf verðlaust, sem hún finnur í næsta nágrenni, eins og steina, hrútahauskúpur, hunda- og tófuhári og fleiru. Við spjöllum við Josefinu í þættinum í dag.
Halli Reynis söngvaskáld og trúbador mætir á sagnakaffi í kvöld í Gerðubergi með kassagítarinn sinn. Hann skemmtir með söng og sögum af fólki sem hann hefur hitt gegnum tíðina og hafa gefið honum ástæðu til að semja lög og texta. Inn í þetta blandast sögur af ferðalögum en einmitt á ferðum sínum hefur hann hitt margt af þessu fólki.
Halli kennir tónlist en hann lauk B.ed. gráðu í tónlistarkennslu vorið 2012 frá Háskóla Íslands og 2014 lauk hann meistaranámi sem tónlistar- og leiklistarkennari frá HÍ.
Allir ættu að fara á námskeið í skyndihjálp segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, leiðbeinandi í skyndihjálp hjá Rauða krossinum. Hún segir að einnig ætti að kenna skyndihjálp í grunnskólum því það hafi sýnt sig að börn geta bjargað mannslífum. Bergljót Baldursdóttir ræðir við Þóru Kristínu á Heilsuvaktinni í dag.