Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var leikarinn Jóel Sæmundsson, hann lærði leiklist í London í vikunni var frumsýnd kvikmyndin Vesalings elskendur, eftir sænska leikstjórann Maximilian Hult þar sem Jóel er í einu aðalhlutverkanna. Jóel sagði okkur frá æskunni, leiklistinni, körfubolta og fleiru í viðtalinu.
Þarnæsta sunnudag, tuttugasta og fjórða febrúar næstkomandi verða einstakir tónleikar í Fríkirkjunni í Reykjavík. Þá mun Matti Kallio spila á bæði hefðbundna harmonikku og nota rafharmonikku til að stjórna nýuppgerðu orgeli Fríkirkjunnar. Þessi fjarstýring orgelsins verður fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Á dagskránni verða hans eigin tónsmíðar auk nýrra útsetninga á hefðbundnum þjóðlögum. Matti, sem hefur búið á Íslandi í um áratug, er einn af fjölhæfustu finnsku tónlistarmönnum sinnar kynslóðar. Hann spilar á fjölda hljóðfæra, semur og útsetur og hefur bæði spilað inn á og stýrt upptökum á yfir hundrað hljómplötum á ferli sínum. Hefur hann unnið til fjölda verðlauna fyrir störf sín. Hann hefur unnið með m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Agli Ólafssyni, Bubba Morthens, Þjóðleikhúsinu, Þjóðarballet Finnlands og Todmobile. Matti kom í þáttinn og spilaði á harmonikkuna.
Í matarspjallinu í dag kom Sigurlaug Margrét, besti vinur bragðlaukanna, með góðan gest með sér. Leikarann Jóhannes Hauk Jóhannesson, sem hefur verið að gera það gott í stórum kvikmyndaverkefnum erlendis undanfarin ár. Við spjölluðum við hann um bakstur, en hann hefur lagt mikinn metnað í súrdeigsbrauðgerð undanfarið og spurðum hann líka aðeins út í matarræðið í kvikmyndatökunum erlendis.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MAGNÚS R. EINARSSON