Þorbjörn Jensson fyrrum landsliðsmaður í handbolta og fyrrum forstöðumaður Fjölsmiðjunnar var föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag. Við ræddum við Þorbjörn um handboltann og þjálfun, HM og skoðun hans á íslenska liðinu, komum líka inná hans vinnu með ungu fólki í Fjölsmiðjunni og fleira.
Á sunnudaginn fer fram úrslitakvöld í Vox Domini söngkeppni sem Félag Íslenskra Söngkennara (FÍS) efndi til í fyrsta sinn árið 2017 og er nú orðin árlegur viðburður í tónlistarlífinu. Þessi söngkeppni er ætluð söngnemendum sem stundað hafa nám í íslenskum tónlistarskólum. Rödd ársins 2017 var Marta Kristín Friðriksdóttir sem stundar núna framhaldsnám í Vínarborg. En það er keppt í þremur flokkum, miðstigi,framhaldsstigi og opnum flokki. Við hringdum í Egil Árna Pálsson söngkennara.
Svo var það matarspjallið, Sigulaug Margrét var fjarri góðu gamni í þetta sinn, en við fengum Birgi Tryggvason, sem kallar sig fjölrásahljóðblendil í símaskránni. En hann vinnur einmitt við hljóð, upptöku og hljóðblöndun fyrir sjónvarp, kvikmyndir og auglýsingar, nú síðast blandaði hann allt hljóðið, eða mixaði eins og það kallast í bransanum, í Áramótaskaupinu. Hann er mikill matgæðingur og leggur sérstakan metnað í að elda allt frá grunni.
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON