Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var kvikmyndaleikstjórinn Grímur Hákonarson. Við forvitnuðumst um hvar hann fæddist og ólst upp, skólagönguna og hvenær hann ákvað að leggja kvikmyndagerðina fyrir sig. Grímur var að frumsýna í vikunni nýja heimildarmynd, Litlu Moskvu auk þess hefur hann lokið tökum á nýrri kvikmynd í fullri lengd, Héraðið, en hann síðasta mynd, Hrútar, fékk virkilega góða dóma og sópaði að sér verðlaunum um allan heim.
Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að í dag er dagur íslenskrar tungu, Guðrún fór af því tilefni í leikskóla og grunnskóla og spurði 5 - 15 ára börn út í ýmis íslensk orð, hvort þau vissu hvað þau þýddu. Það var allur gangur á því en svörin voru mjög skemmtileg og áhugaverð.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, besti vinur bragðlaukanna, var svo með sitt vikulega matarspjall í þættinum í dag. Auðvitað var hún á íslenskum nótum á degi íslenskrar tungu, íslenskur matur og íslensk gestrisni og fleira úr bók Helgu Sigurðardóttur, Matur og drykkur.
Umsjón Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson