13 dögum eftir að hinn vestræni heimur heldur jól halda Rússar, og flestir Úkraínubúar jól, eða 7. janúar. Ljóðskáldið, blaðakonan og þýðandinn Natasha S fæddist í Rússlandi en hefur verið búsett á Íslandi í 10 ár. Hún hefur vakið athygli fyrir skrif sín, en hún hlaut nýverið bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir sína fyrstu ljóðabók, Máltöku á stríðstímum. Natasha kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá ljóðabókinni og hvernig það hefur verið að koma frá Rússlandi eftir að stríðið hófst í febrúar. Auk þess sagði hún okkur frá jólahaldi í Rússlandi og af áramótunum, sem hún segir raunar að séu mikilvægari en jólin.
Við fengum líka til okkar fulltrúa Hringsjár, sem sérhæfir sig í náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám eða til að stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Starfsemi Hringsjár snýst um hjálp til sjálfshjálpar og byggir fyrst og fremst á ráðgjöf, námi stoðþjónustu, þverfaglegri starfsendurhæfingu og samvinnu. Helga Eysteinsdóttir, forstöðukona Hringsjár og Jónas Hannes Eyberg nemandi í Hringsjá komu í þáttinn og sögðu okkur nánar frá starfseminni.
Sóli Hólm, grínari, eftirherma, útvarpsmaður og fleira, kom svo að lokum til okkar til að segja okkur frá sýningunni Loksins eftirhermur sem hann sýndi margoft og víða, en sýningin var svo tekin upp í haust og verður í sjónvarpinu kl. 20 annað kvöld. Hann er glettilega góð eftirherma og leikur í sýningunni ýmsar þjóðþekktar persónur. Við forvitnuðumst í þættinum við Sóla um það hver galdurinn er á bak við góða eftirhermu.
Tónlist í þættinum í dag:
Myrkur og mandarínur / Hljómsveitin Eva (Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir)
Það rignir úti / FolkBeat
Snefill / Moses Hightower (Steingrímur Karl Teague, Andri Ólafsson, Magnús Tryggvason Elíassen og Daníel Friðrik Böðvarsson)
Þú komst við hjartað í mér / Hjaltalín (Þorgrímur Haraldsson (Toggi), Bjarki Jónsson og Páll Óskar Hjálmtýsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG MELKORKA ÓLAFSDÓTTIR