Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir ræddu í Heimsglugga vikunnar við Boga Ágústsson um stjórnmál á Grænlandi þar sem kosningar hafa verið boðaðar 6. apríl, sama dag og kjósa á til sveitarstjórna og safnaðarnefnda. Grænlensk stjórnmál eru flókin, það eru tíð skipti á flokkum í stjórn, þannig að þó að Kim Kielsen hafi verið formaður landsstjórnarinnar frá 2014 hefur hann verið í forystu fyrir fjölda samsteypustjórna og nú síðast minnihlutastjórn. Leiðtogar staldra gjarna stutt við í embætti, klofningur flokka er algengur, leiðtogar sem verða undir stofna iðulega nýja flokka og sumir flokkar lifa stutt.
Ný skoðanakönnun bendir til þess að Inuit Ataqatigiit (IA) vinni sigur í kosningunum og fái 13 sæti af 31 á grænlenska Landsþinginu. Ef svo fer verður Múte B. Egede, formaður flokksins, næsti formaður landsstjórnarinnar eða forsætisráðherra Grænlands. Egede fæddist 1987 og þrátt fyrir ungan aldur hefur hann starfað lengi í pólitík, var formaður ungliðahreyfingar IA og formaður Stúdentaráðs Grænlandsháskóla. Hann hætti námi í sagnfræði til að taka við rekstri fjölskyldufyrirtækis. IA er vinstri flokkur sem kannski væri helst hægt að líkja við Vinstri græn á Íslandi.
Aðalmál kosningabaráttunnar nú verða líklega ný fiskveiðilöggjöf, bygging þriggja flugvalla og námuvinnsla.
Varnarmálaráðherrar ríkja Atlantshafsbandalagsins hittust á fjarfundi í gær. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði fyrir nokkrum dögum að bandalagið yrði að horfa til Kína í framtíðinni og margir telja að bandalagsríkjum kunni að stafa hætta af umsvifum Kínverja á netinu og í geimnum í framtíðinni. Stoltenberg segir að vissulega hafi NATO verið stofnað sem svæðisbundið varnarbandalag en ógnir við það séu ekki lengur bundnar við ákveðin svæði heimsins, allur heimurinn sé undir.