Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir settust við Heimsgluggann með Boga Ágústssyni og beindu augunum að Grænlandi þar sem Kim Kielsen missti formennsku í stjórnarflokknum Siumut. Erik Jensen er nýr formaður, Vivian Motzfeldt varaformaður og Inga Dóra Guðmundsdóttir Markussen varaformaður með ábyrgð á skipulagsmálum flokksins. Þá var rætt um ,,Regional Comprehensive Economic Partnership" eða RCEP, sem er stærsta fríverslunarsvæði heims. 15 lönd í Asíu og við Kyrrahaf eru þátttakendur í því, þar á meðal Ástralía, Japan, Kína, Nýja-Sjáland og Suðu-Kórea.
Þá var rætt um jólalagið „Fairytale of New York“ með hljómsveitinni The Pogues og Kirsty McCall. BBC hefur ákveðið að ekki megi spila upphaflegu útgáfuna á BBC Radio 1, en markhópur hennar er ungt fólk. Ástæðan er að í textanum segir: „You scumbag, you maggot. You cheap lousy faggot. Happy Christmas your arse, I pray God it's our last.“ Orðið „faggot“ þykir ekki boðlegt nú á tímum, þetta er niðrandi orð um homma. Það má spila upphaflegu útgáfuna á BBC Radio 2 og öðrum rásum BBC.