Björn Þór Sigbjörnsson, Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson ræddu minningardag um helförina, sem er 27. janúar. Þann dag árið 1945 frelsuðu sovéskar hersveitir Auschwitz-útrýmingarbúðirnar í Póllandi. Dagurinn er einnig fyrir mörgum baráttudagur gegn gyðingaandúð, hatri og hatursumræðu. Sex milljónir gyðinga voru myrtar af nasistum og milljónir annarra voru einnig myrtar, Rómafólk, samkynhneigðir, fatlað fólk og pólitískir andstæðingar. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér bann við afneitun helfararinnar, að það verði refsivert að afneita helförinni.
Þá ræddu þau hvaða breytingar hefðu fylgt arabíska vorinu svokallaða, en um þessar mundir eru tíu ár frá miklum mótmælum í Kaíró sem leiddu til falls Hosnis Mubaraks. En það hefur verið öfugþróun í flestum arabaríkjum, sérstaklega í Sýrlandi og Jemen. Fleira fólk í Arabalöndunum býr við fátækt, það er meira atvinnuleysi og fleiri pólitískir fangar sitja bak við lás og slá en fyrir áratug,
Í lokin var rætt um áhyggjur margra í Bretlandi af upplausn United Kingdom, sameinaða konungdæmisins, sem varð til með sameiningu Englands og Skotlands árið 1707. Á sama tíma berast fregnir af því að þjóðarréttur Skota, haggis, sé alls ekki skoskur heldur enskur. Skotar og vinir þeirra um allan heim koma saman, kannski ekki í ár, til þess að minnast Roberts Burns, þjóðskálds Skota og hafa þar yfir ljóð hans um haggis. Í grein í fylgiriti Economist segir að ljóðið sé líklega frægasti skáldskapur um innmat í vestrænni menningu.
Heimsglugginn endaði á því að leikið var lag með kanadísku hljómsveitinni Enter the Haggis.