Þórunn Elísabet Bogadóttir og Björn Þór Sigbjörnsson ræddu við Boga Ágústsson í Heimsglugganum um hneykslismál sem skekur Danmörku. Þar hefur komið í ljós að leyniþjónusta hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste, hefur brotið lög og reglur. Leyniþjónustunni er ætlað að starfa að upplýsingaöflun utan Danmerkur en forráðamenn eru grunaðir um að hafa látið grennslast fyrir um fólk í Danmörku. Þar á meðal er einstaklingur sem vinnur hjá stofnun sem á að hafa eftirlit með leyniþjónustunni. Forstöðumaður leyniþjónustunnar og fyrirrennari hans hafa verið reknir og tveir aðrir háttsettir í leyniþjónustunni.
Einnig var rætt um að mænusótt eða lömunarveiki hefur verið útrýmt í Afríku eftir mikla bólusetningarherferð.
Í lokin var rætt um deilur i Bretlandi sem spruttu upp þegar skýrt var frá því að breska ríkisútvarpið, BBC, ætlaði að sleppa því að láta syngja Land of Hope and Glory og Rule Britannia á lokakvöldi BBC Proms tónleikaraðarinnar. Last Night of the Proms er gríðarlega vinsæl útsending, sent er út frá Royal Albert Hall í Lundúnum og frá útisamkomum í Lundúnum, Cardiff, Belfast og Glasgow þar sem fjöldi manns safnast saman við stóra skjái til að fylgjast með útsendingunni. Þar hefur alltaf verið fullt út úr dyrum á lokakvöldinu, mikil stemning og tekið hraustlega undir þegar sálmurinn Jerúsalem er sunginn og ekki síður þegar Land of Hope and Glory og Rule Britannia eru leikin. Ýmsum þykir að lögin minni um of á nýlendustefnu og þrælahald og víst er að þau eru órjúfanleg tengd breska heimsveldinu.
Vegna kórónuveirunnar verða engir gestir í Royal Albert Hall á lokakvöldinu.