Í Heimsglugganum var athyglinni beint að minningarathöfn í Frakklandi um Samuel Paty, sem myrtur var í hryðjuverkaárás í síðustu viku, #metoo í Danmörku og kosningunum í Bandaríkjunum. Þingmaður Íhaldsflokksins í Danmörku, Orla Østerby, var í gærkvöld sviptur trúnaðarstörfum í flokknum eftir að ljóst varð að hann hefði ítrekað klappað samþingmanni sínum, Brigitte Klintskov Jerkel, á rassinn. Hann er þriðji toppleiðtoginn í dönskum stjórnmálum sem þarf að gjalda þess að hafa farið út fyrir velsæmismörk í samskiptum við konur.
Í Bandaríkjunum hefur Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, enn mikla forystu á Donald Trump, forseta, þegar 12 dagar eru til kosninga þó að staða forsetans hafi styrkst lítillega. Úrslitin ráðast í nokkrum ríkjum eins og Pennsylvaníu þar sem Trump vann 2016. Biden hefur forystu þar og báðir frambjóðendur leggja mikla áherslu á að reyna að sannfæra kjósendur í Pennsylvaníu um að styðja framboð sitt. Trump var með fund þar í fyrrakvöld og í gærkvöld flutti Barack Obama, fyrrverandi forseti, ræðu í Fíladelfíu, stærstu borg ríkisins.