Í dag er dagur íslenskrar tónlistar, því vorum við í beinni útsendingu frá Iðnó þar sem veitt voru verðlaun í tilefni dagsins til þeirra sem hafa lagt lóð sín á vogarskálina í þágu íslenskrar tónlistar.
Við fengum Jakob Frímann Magnússon, formann SAMTÓN í spjall til okkar, en hann var í hátíðarskapi í tilefni dagsins.
Við fengum heiðursverðlaunahafa dagsins í viðtal og fengum í rauninni að segja frá því í beinni útsendingu að það væri Gerður G. Bjarklind. Hún verðskuldar verðlaunin svo sannarlega fyrir að hafa skarað fram úr í umfjöllun, ræktarsemi og kynningu á íslenskri tónlist. Gerður hóf störf hjá auglýsingadeild Ríkisútvarpsins árið 1961. Svo stjórnaði hún Lögum unga fólksins, Óskastundinni og var þulur í fjölmörg ár. Við rifjuðum upp hennar feril með henni.
Klukkan hálf tólf hófst verðlaunaafhendingin í beinni útsendingu þar sem veitt voru fern verðlaun og þrjú íslensk lög flutt á sviðinu. Bjarni Gaukur Sigurðsson tók á móti verðlaunum fyrir hönd Mengis, Icelandair fékk hvatningaverðlaun fyrir stuðning við íslenska tónlist, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra tók við verðlaunum fyrir stuðning við íslenska tónlist vegna nýrra laga um höfundarrétt og endurgreiðslur og svo var það auðvitað Gerður G. Bjarklind sem hlaut heiðursverðlaunin.
Við heyrðum flutning tónlistarmannsins Auðar á sínu eigin lagi, Enginn eins og þú og svo flutti söngkonan Matthildur Sykurmolalagið Ammæli. Þeim til halds og traust var Þorvaldur Þór Þorvaldsson slagverksleikari.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON