Við kynntum í dag inn tvö ný efni sem munu fylgja okkur á nýju ári í Mannlega þættinum.
Þorsteinn Guðmundsson, leikari, meistaranemi í sálfræði og skólastjóri Bataskólans verður með fasta pistla í þættinum á nýja árinu sem hann kýs að kalla Breyskleikar Þorsteins Guðmundssonar. Þar ætlar hann að fjalla um margvísleg efni sem tengjast einmitt breyskleikum hans og líklega okkar allra. Þorsteinn kom í þáttinn í dag og sagði betur frá því sem hann ætlar að fjalla um í pistlum sínum eins og til dæmis, að hvaða leiti erum við eins og vélmenni? Að hvaða leiti er heili okkar eins og tölva? Þorsteinn lét vita af því að ef hlustendur hafa einhverja fyrirspurn, eða ábendingar í sambandi við þessar spurningar, þá geti þeir sent þær á [email protected].
Margir þjást af flughræðslu og því miður sumir við talsvert mikla flughræðslu, jafnvel ofsahræðslu. Þó við ættum að vita að það séu töluvert minni líkur á að lenda í lífshættu um borð í flugvél en til dæmis í bíl og það eru víst meiri líkur á því að við látum lífið við að rúlla fram úr rúminu en um borð í flugvél. Daníel Ólason, rafeindavirki og raforkuverkfræðingur, kynnti hugmynd á hugmyndadögum RÚV um að gera innslög fyrir útvarp um einmitt þetta efni, en hann hefur þjáðst af mikilli flughræðslu í gegnum tíðina. Það er skemmst frá því að segja að hugmyndin var samþykkt og hann hefur nú lagt á sig mikla vinnu við að taka viðtöl við sérfræðinga sem gátu svarað spurningum hans sem hafa komið upp í sambandi við flughræðsluna, atvinnuflugmann, öryggiskennara og yfirkennara flugfreyja og flugþjóna, flugvirkja, doktor í flugverkfræði og doktor í sálfræði. Daníel kom í stutt viðtal í þáttinn í dag og svo fengum við að heyra fyrsta innslagið af sex um flughræðslu þar sem hann tók viðtal við Friðbjörn Oddsson, þjálfunarflugstjóra hjá Icelandair.
Magnús R. Einarsson sendi okkur áramótapóstkort í dag. Áramótin á Spáni eru ekki eins litrík og á Íslandi, en þeir skemmta sér engu að síður konunglega við þetta tilefni. Í þessu Póstkorti frá Spáni segir Magnús frá þrem fréttum sem fönguðu athygli Spánverja á liðnu ári.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON