MANNLEGI ÞÁTTURINN MIÐVIKUDAGUR 4.SEPT 2019
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
Endurmenntun HÍ býður upp á átta vikna núvitundarnámskeið sem er hugsað fyrir almenning til að takast á við streitu daglegs lífs. Markmið námskeiðsins er að þjálfa núvitund, öðlast meiri hugarró og njóta betur líðandi stundar. Við fáum í heimsókn til okkar Önnu Dóru Frostadóttur, klínískan sálfræðing til að fræða okkur um núvitund en hún er önnur stjórnenda námskeiðsins.
Magnús R. Einarsson sendir okkur póstkort frá Spáni og í korti dagsins segir Magnús frá tíma sínum í Alicante, hitanum og ráðum við honum, þéttbýlinu sem hefur sína stóru kosti, almenningssamgöngum sem eru til fyrirmyndar. Hann segir líka af kínverskum þörungum sem eru að ógna strandlífinu á austurströnd Spánar, heilu þorpunum sem eru að tæmast og hvernig það er að vera næstum mállaus í framandi landi.
INFACT er fjölþjóðlegur skóli og kennir sykur/matarfíknimeðferðir og ráðgjöf og er fyrsta og eina námið í sykur/matarfíkniráðgjöf á heimsvísu þar sem nemar geta öðlast vottun frá viðurkenndu vottunarráði fyrir slíka ráðgjöf. Útskriftarnemar öðlast réttindi sem Matarfíkniráðgjafar og þeir sem standa að náminu eru fjölþjóðlegur hópur sérfræðinga sem vinna að sykur/matarfíkn, ráðgjöf, meðferðum, líffræði, læknisfræði, efnaskiptarannsóknum og næringarfræði.