Föstudagsgesturinn okkar var enginn annar en Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari. Ólafur er íslenskum óperu- og tónleikagestum að góðu kunnur. Hann var fyrsti fastráðni söngvarinn við Íslensku óperuna árin 2001-2004 og fór þar með fjölmörg hlutverk. Síðast kom hann fram á Íslandi árið 2017 sem Scarpia í Toscu og hlaut Íslensku tónlistarverðalaunin sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á hlutverkinu.
Hlutverkalisti Ólafs Kjartans er orðinn langur og fjölbreyttur, en á undanförnum misserum hafa burðarhlutverk í óperum Wagners og Verdis verið hvað fyrirferðarmest; Rigoletto, Falstaff, Macbeth, Iago, Renato, Alberich, Hollendingurinn fljúgandi, Telramund og Klingsor.
Næsta sumar fer Ólafur Kjartan með hlutverk Biterolf í Tannhäuser á Wagnerhátíðinni í Bayreuth í Þýskalandi ásamt því að hefja æfingar á nýrri uppfærslu á Niflungahringnum sem frumsýndur verður í Bayreuth sumarið 2022, en þar fer hann með hlutverk Alberich. Það eru tónleikar hér á landi og ferðalög framundan hjá Ólafi í tengslum við sönginn, við fengum að vita allt um það í þættinum.
Matarspjallið var svo auðvitað á sínum stað, Sigurlaug Margrét, besti vinur bragðlaukanna kom til okkar og við vorum á söngmatarnótum í dag. Hvað borða almennilegir óperusöngvarar? Hvaða matur fer vel í söngvara og æsa óperur upp matarlyst og matarást á einhverjum sérstökum mat? Ólafur Kjartan, föstudagsgestur þáttarins sat sem sagt áfram með okkur og talaði um mat frá ýmsum hliðum.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR