Spegillinn 21 nóvember 2022
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Mark Eldrid
Lögreglan hefur handtekið hátt í 30 manns vegna hnífaárásarinnar í Bankastræti í Reykjavík fyrir helgi. Tveggja er enn leitað.
Að minnsta kosti 162 eru látnir og sjö hundruð slasaðir eftir jarðskjálfta sem varð á Jövu í Indónesíu í morgun.
Fyrsti sameiginlegi fundur Samtaka atvinnulífsins og samninganefnda Starfsgreinasambandsins, VR, og Landssambands íslenskra verslunarmanna var hjá ríkissáttasemjara í dag.
Rannsókn á banaslysi á gatnamótum Barónsstígs og Grettisgötu, þar sem ungur karlmaður á rafskútu lést í árekstri við rútu, er á frumstigi hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Dómsmálaráðuneytið fékk ákúrur frá Íslenskri ættleiðingu eftir að ráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka árið 1986. Það var gert eftir að upp komst um fölsuð skjöl barns sem ættleitt var þaðan hingað til lands.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, segir lífshættulegar aðstæður vofa yfir Úkraínumönnum í vetur vegna árása Rússa á raforkukerfi landsins.
Evrópuliðin England og Holland unnu andstæðinga sína á HM í Katar í dag.
Lengri umfjöllun:
Slysum af völdum rafskúta hefur fjölgað mjög undanfarin misseri samfara því að fleiri og fleiri slík hjól - bæði í einka- og fyrirtækjaeigu eru flutt inn og tekin í notkun. Banaslys varð um helgina í miðbæ Reykjavíkur og tölur frá slysadeild Landspítalans sýna að margir meiða sig og slasa á þessum farartækjum. Kristján Sigurjónsson talar við Jónas Birgi Jónasson lögfræðing hjá Innviðarráðuneytinu sem sæti átti í starfshópi um smáfarartæki, en hópurinn skilaði tillögum um úrbætur í sumar.
Það hefur gustað um Knattspyrnusamband Íslands frá því að Vanda Sigurgeirsdóttir tók við sem formaður þess, og raunar í aðdraganda þess að hún bauð sig fram til formennsku. Nú síðast var deilt á sambandið fyrir að veita landsliðskonum ekki sams konar viðurkenningu og landsliðskörlum við þau tímamót að leika hundraðasta landsleikinn fyrir hönd Íslands. Vanda Sigurgeirsdóttir er í Katar. Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttamaður, ræddi við hana í dag.
Á laxeldið að borga fyrir að nota sjóinn við strendur landsins? Deilan um grunnrentu eða auðlindagjald veldur nú mestum sporðaköstum í opinberri umræðu í Noregi. Ríkið vill fá peningana í sinn sjóð en laxeldismenn segja að ríkið vilji allt of mikið. Þeir benda heldur á íslenska auðlindagjaldið, sem sé bæði réttlátt - og lítið. Gísli Kristjánsson segir frá,