Spegillinn 2. nóvember 2022
Lögregla hefur síðustu daga handtekið hælisleitendur og fært í gæsluvarðhald á Hólmsheiði. Lögmaður nokkurra þeirra furðar sig á gjörningnum.
Óvíst er hvort niðurstöðu Hæstaréttar í máli Gráa hersins gegn ríkinu og Tryggingastofnun verði skotið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Niðurstaðan í dag veldur vonbrigðum, segir annar lögmanna Gráa hersins.
Öryrkjar sem hafa leitað til umboðsmanns skuldara í ár hafa að meðaltali minna en enga greiðslugetu. Verkefnastjóri þar segist eiga erfitt með að sjá hvernig sá hópur eigi að draga meira saman.
Útlit er fyrir að verð á aðföngum til bænda hækki enn frekar á næsta ári. Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna óttast að bændur bregði búi vegna þessa.
Fyrirhugaðar breytingar á fjölmiðlalögum taka sérstaklega á skuggahliðum netheima og nýjum veruleika bæði fjölmiðla og notenda í stafrænum heimi.
Prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands segir að oft sé gengið fram hjá byggðasöfnum sem vilja sýna fornminjar í sinni heimabyggð. Í stað þess séu þær fluttar á Þjóðminjasafnið í Reykjavík.
------
Margrét Þórhildur Danadrottning ræddi í dag við leiðtoga allra stjórnmálaflokka landsins og hlustaði á skoðanir þeirra- á hver eigi að verða næsti forsætisráðherra. Mette Frederiksen hélt í morgun á fund drottningar og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Henni var falið að gegna forsætisráðherraembættinu áfram þar til nýr hefur verið skipaður, að líkindum hún sjálf.
Bændur hafa fundið rækilega fyrir hækkun á aðföngum, eins og fóðri, plasti og áburði. Ástæðan er sú að hráefni til áburðarframleiðslu eru meðal annars í Rússlandi. Þetta hefur óneitanlega áhrif á verðlag matvöru, bæði hér á landi og annars staðar. Og enn syrtir í álinn. Útlit er fyrir enn frekari hækkanir á nauðsynlegum aðföngum til búrekstrar á næsta ári. Hugmyndir eru uppi um að nýta betur lífræn efni til ræktunar túna. Vigdís Häsler er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Bjarni Rúnarsson ræddi við hana.
Mikill meirihluti minja, sem fundist hafa í fornleifauppgreftri á landsbyggðinni á undanförnum árum, er í geymslum Þjóðminjasafns Íslands á höfuðborgarsvæðinu. Prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands segir að oft sé gengið fram hjá byggðasöfnum sem vilji sýna minjarnar í heimabyggð.Ólöf Rún Erlendsdóttir ræddi við Steinunni Kristjánsdóttur og Ágústu Kristófersdóttur.
Umsjónarmaður: Bjarni Rúnarsson.
Tæknimaður: Mark Eldred.
Stjórn fréttaútsendingar: Valgerður Þorsteinsdóttir.