Um helgina kemur tasmaníski grínistinn Hannah Gatsby fram í Hörpu með uppistandssýninguna Douglas. Gatsby setti uppistandsheiminn á hliðina eftir að sýning hennar Nanette varð aðgengileg á Netflix í fyrra og gerði hana að stórstjörnu á einni nóttu. Sýningunni var lýst sem hinu fullkomna uppistandi fyrir tíma #metoo, með því að berskjalda sjálfa sig spurði hún spurninga um tilgang og virkni gríns og hvernig það tengist fordómum og ofbeldi í samtímanum. Við kynnumst Hönnuh Gatsby í Lestinni í dag, og ræðum meðal annars við Nönnu Hlín Halldórsdóttur, um grín og viðkvæmni.
Nóbelskáldið Benedikt er dauðvona. Dóttir hans Rakel og tengdasonur eru stödd í niðurníddum iðnaðarbæ, djúpt í amazon-frumskóginum, að vinna að heimildarmynd um þetta sérvitra stórskáld. Feðginin hafa ekki hist í áratugi og geta ómögulega komið sér saman um hvernig Benedikt á að birtast í heimildamyndinni. Þannig er atburðarásinu í nýju leikriti, Stórskáldið, eftir Björn Leó Brynjarsson, sem var leikskáld Borgarleikhússins síðasta vetur. Við ræðum við Björn Leó um hinar mörgu hliðar sannleikans.
Í dag hefur göngu sína pistlaröð serbnesku tónlistarkonunnar Jelenu Ciric um blandaða tónlistarmenn - tónlistarfólk sem stendur á einn eða annan hátt á milli menningarheima og nýtir sér þá togstreitu í verkum sínum. Í þessum fyrsta pistli fjallar Jelena um bandarísk-japanska indie-rokkarann Mitski.
Marta Sigríður Pétursdóttir rýnir svo í umtöluðustu kvikmynd ársins, Jóker, og sýrlensku heimildarmyndina For Sama.