Hvernig verður maður að stjórnmálamanni? Það er löng og ströng leið upp í efstu metorðastiga stjórnmálanna. Þessi leið er rakin í í bandarísku gamanþáttaröðinni The Politician, Stjórnmálamaðurinn, sem eru framleiddir af Netflix. Í fyrstu þáttaröðinni tekur aðalpersónan þátt í hörðum kosningaslag í stúdentapólitíkinni. Áslaug Torfadóttir rýnir í þættina í Lestinni í dag.
Eldhús, Baðherbergi, Stofa, Borðstofa, svefnherbergi, bílskúr. Einkaheimili kjarnafjölskyldunannar, íbúðin, er það búsetuform sem þykir eðlilegt í samtímanum. En þannig hefur það ekki alltaf verið og þarf ekki að vera í framtíðinni. Um þetta fjallar þýski arkitektafræðingurinn Niklas Maak í bókinni Living Complex. Anna María Bogadóttir, arkitekt, segir frá bókinni sem henni finnst varpa sérstaklega áhugaverðu ljósi á heiminn sem við lifum í.
Sambandið milli orsaka og afleiðinga, þess lífræna og ólífræna, milli lifandi og dauðra, er hverfandi í nýju dansverki Rósu Ómarsdóttur, Spills, sem verður frumsýnt á Reykjavík Dance Festival í vikunni. Sviðið umbreytist í einskonar vistkerfi þar sem ósýnileg öfl eru hreyfiaflið: raki, bylgjur, rafsegulsvið og þyngdarafl. Við spjöllum við Rósu um orsakasamband og ósýnilega krafta.
Við heyrum um það sem er ábyggilega átakanlegasta aukavinna margra íslenskra popptónlistarmanna, að syngja í jarðarförum. Ingó Veðurguð segir frá sinni reynslu í endurfluttu innslagi úr útvarpsþættinum Grár Köttur.