Sigríður Víðis Jónsdóttir hefur starfað meðal annars sem blaðamaður, aðstoðarmaður ráðherra og hjá UNICEF, en hún kom í viðtal í dag og við ræddum við hana um mögnuð ferðalög sem hún lagðist í til landa sem við fæst förum til en sjáum helst fréttir um vegna stríðsátaka og gríðarlega erfiðra tíma. Hún var yfirleitt ein á þessum ferðalögunum og skrifaði meðal annars blaðagreinar þar sem hún miðlaði til Íslands ástandinu á staðnum, sögur af heimafólkinu og fjölskyldunum sem hún kynntist oftar en ekki náið. Afghanistan, Mjanmar, Katar, Bosnía og Hersegóvína, Eþíópía, Rúanda, Suður Súdan, Sýrland, Írak, Palestína, Ísrael og Búrkína Fasó. Við fengum Sigríði til að segja okkur sögur af sínum ferðalögum, en hún skrifaði bókina Vegabréf: íslenskt um reynslu sína.
Árið 2016, eftir röð áfalla, byrjaði Gunnella að finna fyrir allskonar einkennum sem hún hafði ekki áður upplifað. Hjartslátta- og meltingatruflanir, síþreyta, verkir í augum, sveppasýking í hálsi og margt fleira. Taugaáfall, sagði læknirinn. Svona hljómar hluti af kynningu á leikverkinu Hvað ef sósan klikkar? eftir Gunnellu Hólmarsdóttur leikkonu og handritshöfund. Leikritið er sett upp sem matreiðsluþáttur í sjónvarpi í beinni útsendingu. Gunella kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá leikverkinu þar sem hún notar persónulega áfallasögu sína og fjölskyldu sinnar.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag. Í korti dagsins sagði Magnús frá bók sem hann hefur verið að lesa undanfarið og er eftir Martin Rees, sem er hinn konunglegi stjörnufræðingur Breta. Í bókinni spáir höfundur því að helmings líkur séu á að mannkynið muni tortíma sér á þessari öld og færir fyrir því ýmis rök. Í framhaldinu velti Magnús fyrir sér af hverju hin ákafa leit að vitsmunalífi utan jarðar hafi engu skilað og af hverju enginn hafi haft samband við okkur sem sveimum um á lítilli plánetu og teljum okkur viti bornar verur.
Tónlist í þættinum í dag:
Hótel Jörð / Heimir, Jónas og Vilborg Árnadóttir (Heimir Sindrason ogTómas Guðmundsson)
Hálft í hvoru / Hálft í hvoru (Aðalsteinn Ásberg, Ingi Gunnar Jóhannsson, Guðmundur Árnason og Aðalsteinn Ásberg)
Love me do/Beatles (Lennon & McCartney)
When will I be loved / Everly Brothers (Marc Bolan og Phil Everly)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON