Í Víðsjá í dag verður rætt við Önnu Maríu Bogadóttur, lektor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands, en hún gaf nýverið út bókina Mannlíf milli húsa eftir Jan Gehl. Rætt verður við Önnu Maríu um hugmyndir Gehls um almenningsrýmið og hvernig þær hafa haft áhrif á borgir eins og Kaupmannahöfn og Reykjavík.
Halla Þórlaug Óskarsdóttir sendir hlustendum pistil frá Svíþjóð og veltir fyrir sér húsum látinna listamanna.
Við heyrum einnig í Finni Karlssyni og Þuríði Jónsdóttur en þau eru meðal fjögurra tónskálda sem eiga verk á Tónlistarhátíð Rásar 1 - Efnið og andinn sem fer fram í Hörpu annað kvöld og verður jafnframt í beinni útsendingu.
Eins og dyggir hluste ndur Rásar 1 hafa eflaust þegar orðið varir við, þá hófst lestur nýrrar kvöldsögu hér á rásinni á þriðjudag, en þar er um að ræða löngu sígildan upplestur Gísla Halldórssonar á þýðingu Karls Ísfells á sögu Jaroslavs Haseks á góða dátanum Svejk. Í útvarpsþáttum frá 1989 fjallaði bókmenntafræðingurinn Friðrik Rafnsson um austur-evrópskrar bókmenntir og í einum þáttanna fjallaði hann saman um sögupersónurnar Josef K, úr réttarhöldum Frans Kafka, og Góða dátan Svejk, en þeir Kafka og Hasek fæddust báðir 1883 í Prag. Við hér í Víðsjá leyfum okkur að grípa á nokkrum stöðum niður í þennan þátt Friðriks úr safni útvarpsins.
Umsjón: Guðni Tómasson og Halla Harðardóttir.