Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstövar, og Hrólfur Karl Cela, arkitekt, verða gestir þáttarins í dag. Halla og Hrólfur eru meðal þeirra sem taka til máls í Veröld, húsi Vigdísar, á morgun á málþingi um hönnun í kvikum heimi, þar sem litið verður til baka á hönnun í íslensku samhengi árin eftir Hrun, en Hönnunarmiðstöð, líkt og hrunið, á 10 ára afmæli á árinu.
Við heyrum í Yrsu Roca Fannberg, kvikmyndagerðakonu, en hún er ein þeirra sem halda utan um mánaðarlegar kvikmyndasýningar í Kling og Bang. Sýningarnar, sem kallast í myrkri, standa yfir um háveturinn og hefjast að nýju í kvöld.
Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntarýnir Víðsjár, fjallar um Sálumessu í dag, nýjustu ljóðabók Gerðar Kristnýjar.
Og við veltum fyrir okkur söguskoðun og goðsögnum, ræðum við Axel Kristinsson sagnfræðing sem nýlega sendi frá sér bókina Hnignun, hvaða hnignun? sem fjallar um goðsögnina um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands á tímabilinu 1400-1800. Hversu slæmt höfðum við það eiginlega á þessu tímabili?
Umsjón: Guðni Tómasson og Halla Harðardóttir