Í Víðsjá dagsins verður rætt við Daníel Bjarnason tónskáld og hljómsveitarstjóra en hann hlaut á dögunum íslensku tónlistarverðlaunin fyrir störf sín og framlag til íslenskrar tónlistar, auk þess að hljóta þrenn önnur verðlaun á hátíðinni.
Guja Dögg Hauksdóttir veltir fyrir sér byggingarreitum við Arnarhól, þar sem Harpa stendur og Hafnartorg og tilvonandi höfuðstöðvar Landsbankans munu rísa, í pistli um skipulag og fagurfræði borgarinnar.
Hera Guðmundsdóttir er ung listakona sem hefur búið og starfað í París frá því hún útskrifaðist úr Listaháskólanum fyrir tveimur árum. Hún kom heim á hönnunarmars til að sýna ný verk sem hún býr til úr leir og ilmkjarnaolíum. Hera sýnir um þessar mundir í gallerí Geysi við Skólavörðustíg, þar sem við hittum hana í vikunni.
Og rætt er við Guðmund Andra Thorsson um bók vikunnar, sem er skáldsaga hans, Íslenski draumurinn frá árinu 1992.
Umsjón: Guðni Tómasson og Halla Harðardóttir