Dugar einfaldur boðskapur Íhaldsmanna, Get Brexit done, klárum Brexit, til að þeir vinni meirihluta þingsæta í neðri-málstofu breska þingsins? Kosningabaráttan snerist í fyrstu að mestu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en á síðari stigum hefur meira verið rætt um almenn samfélagsmál, ekki síst heilbrigðiskerfið, NHS, sem er nánast heilagt í augum margra Breta.
Úrslitin ráða því hvort Boris Johnson verður áfram forsætisráðherra eða hvort Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, verður húsbóndi í Downing stræti 10. Johnson þarf að vinna öruggan meirihluta, afar ólíklegt er að hann gæti fengið aðra flokka til stuðnings við sig. Corbyn ætti hins vegar meiri möguleika á að semja við SNP, Skoska þjóðarflokkinn, og/eða Frjálslynda demókrata.
Upp til hópa telur breskur almenningur að hvorugur leiðtoga stóru flokkanna sé góður leiðtogi, Johnson er sakaður um að umgangast sannleikann af mikilli léttúð, Corbyn heillar fáa utan harðasta kjarna stuðningsmanna. Mörgum gremst hversu máttleysislega hann hefur tekið á gyðingaandúð innan Verkamannaflokksins.
Kjörsókn er talin skipta miklu máli og kosningarnar geta orðið mjög spennandi þrátt fyrir forystu Íhaldsflokksins í skoðanakönnunum á landsvísu. Í raun eru þingkosningarnar 650 kosningar því Bretar búa við einmenningskjördæmi og lítil sveifla í einstökum kjördæmum getur breytt stóru myndinni.
Stóru sjónvarpsstöðvarnar birta útgönguspá klukkan tíu og búast má við úrslitum úr lykilkjördæmum upp úr klukkan eitt í nótt.
Mynd: Teikning Matts í Daily Telegraph í dag.