Donald Trump Bandaríkjaforseta er vandi á höndum vegna hættulegrar spennu á milli Írans og Sádí-Arabíu. Stjórnvöld í Riyad og Washington telja sannað að Íranar hafi staðið að árásum á olíumannvirki í Sádi-Arabíu. Hvernig verður brugðist við? Trump hefur í raun hegðað sér þveröfugt við mottó fyrirrennara hans fyrir rúmri öld, Theodores Roosevelt, sem sagði: ,,Speak softly and carry a big stick.“ Það mætti útleggja að menn skyldu vera blíðmæltir en með vöndinn reiddan. Trump hefur talað digurbarkalega en verið afar tregur til hernaðarafskipta erlendis.
Ný stjórn hefur tekið við völdum í Færeyjum. Bárður á Steig Nielsen, formaður Sambandsflokksins, er lögmaður, eða forsætisráðherra. Fólkaflokkurinn og Miðflokkurinn eiga einnig sæti í stjórninni. Miðflokkurinn, sem er kristilegur flokkur, á einn ráðherra, Jenis av Rana. Hann er mennta- og utanríkisráðherra. Jenis vakti athygli þegar hann neitaði að sitja kvöldverðarboð með Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, og Jónínu Leósdóttur, eiginkonu hennar, þegar þær voru í opinberri heimsókn í Færeyjum. Hann sagði þá að heimsókn þeirra væri hrein ögrun og ekki í samræmi við boðskap Biblíunnar.
Ný stjórnin hyggst breyta löggjöf um sjávarútvegsmál, hætta að bjóða upp fiskveiðikvóta og afnema bann við að útlendingar eigi hlut í færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Bannið var ein helsta ástæða þess að Færeyingar sögðu upp Hoyvíkursamningnum um fríverslun við Íslendinga. Að óbreyttu hefði samningurinn fallið úr gildi um áramót. Samningurinn er kenndur við bæinn Hoyvík í Færeyjum þar sem skrifað var undir hann í ágústlok árið 2005. Samningurinn er víðtækasti viðskiptasamningur beggja þjóða.