Ekkert miðar í kjaradeilu flugvirkja Landhelgisgæslunnar og ríkisins. Verkfall flugvirkja hefur þegar haft áhrif á þyrlur gæslunnar og engin björgunarþyrla verður tiltæk að minnsta kosti tvo daga í lok vikunnar.
Sjóprófi í máli skipverjanna á togaranum Júlíusi Geirmundssyni lauk um klukkan hálf fjögur í dag en það hófst klukkan níu í morgun. Fimmtán báru vitni fyrir Héraðsdómi Vestfjarða, skipverjar togarans og umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir sagði frá.
Margt bendir til þess að virkni bóluefnis, sem vísindamenn við Oxfordháskóla hafa unnið að í samvinnu við AstraZeneca lyfjafyrirtækið, sé meiri en þau 70% vörn sem greint hefur verið frá í fréttum. Frekari prófanir munu leiða það í ljós. Þetta segir Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði.
Gögn úr stórri heilsufarsrannsókn Íslenskrar erfðagreiningar verða borin saman við heilsufar fólks sem hefur fengið Covid-19 til að greina hvaða langvinnu heilsufarsvandamál má rekja til sjúkdómsins. Már Kristjánsson, yfirlæknir á Landspítalanum segir þarna fást verðmætar og veigamiklar upplýsingar.
Heimildum ber ekki saman um hvort forsætisráðherra Ísraels og krónprins Sádi-Arabíu hafi hist á fundi í gær ásamt Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ásgeir Tómasson sagði frá.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur ekki hægt að draga miklar ályktanir af niðurstöðum danskrar rannsóknar sem fjallað var um í sjónvarpsfréttum í síðustu viku, um að grímunotkun veiti minni vörn en áður var talið og hún komi ekki í staðinn fyrir aðrar sóttvarnir.
Jólatörnin er löngu byrjuð hjá póstinum. Þetta segir Hörður Jónsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Póstsins.
------
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar segir að þó þróun bóluefna fái flýtimeðgerð hjá Lyfjastofnun Evrópu sé ekki slegið af kröfum. Skráningin taki 70 daga í stað rúmlega 200. Arnar Páll Hauksson talaði við hana.
Fólk þarf að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir niðurstöðu máls hjá Persónuvernd og málahalinn er langur. Miðað við fjárlög þarf að fækka starfsmönnum þar þegar rík þörf er á viðbót, segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hana.
Bretar hafa í dag bæði fengið boðskapinn um hvaða Covid-19 aðgerðir gildi á næstunni og fram yfir jólin, og fréttir af nýju bóluefni, þróuðu í Oxford. Sigrún Davíðsdóttir í Lundúnum ræðir við Önnu Kristínu Jónsdóttur.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Ragnar Gunnarsson. Stjórn útsendingar fyrri hluta Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir.