Spegillinn 30.desember 2019
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
13 erlendir ferðamenn lentu í umferðarslysi í Biskupstungum, á þjóðveginum milli Gullfoss og Geysis um fjögurleytið í dag. Þrír voru fluttir með þyrlu á bráðamóttöku Landspítalans. Tveir bílar rákust á í mikilli hálku.
Landsréttur úrskurðar að öllum líkindum ekki í gæsluvarðhaldskröfu yfir Kristjáni Gunnari valdimarssyni fyrr en eftir áramót.
Átta mánaða barn greindist með mislinga í vikunni eftir að hafa komið frá Asíu. Sóttvarnarlæknir segir óvenjumörg mislingasmit hafa greinst í ár.
Verslunin Super1 hefur, í samráði við matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, innkallað þrjár vörur af Rema1000 hnetum þar sem aflatoxin b1 mældist yfir hámarksgildum.
Neytendur eiga ekki lagalegan rétt á því að skila ógölluðum vörum sem þeir hafa keypt í búð eða fengið að gjöf. Verslunum er því í sjálfsvald sett hvort og þá með hvaða hætti þær taka við vöru.
Árið 2019 var hið hlýjasta í Rússlandi frá því að mælingar hófust fyrir í hátt í 130 árum.
Sænsku náttúruverndarsamtökin Perfect World Foundation völdu Gretu Thunberg í dag náttúruverndarsinna ársins.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hvetur fólk til að umgangast skotelda af varúð um áramótin. Mikilvægt sé að fullorðinir komi þar að, allsgáðir, og tryggt sé að skoteldarnir standi á traustum grunni, ekki nærri húsum eða bílum.
Lengri umfjöllun:
Nú er langt liðið á næst síðasta dag ársins og eins og tilheyrir áramótum þá er við hæfi að líta yfir næstum liðið ár og huga að framtíðinni. Í síðasta Spegil ársins er mætt ungt fólk, sem spannar þó 13 ára aldursbil, frá 17 ára til þrítugs í bein útsendingu. Þau eru í aldursröð:
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir nýstúdent frá Tækniskólanum, fyrrverandi formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema og umhverfissinni
Leó Snær Emilsson formaður Súdentafélags Háskólans í Reykjavík og nemandi viðskiptafræði og lögrfræði.
Birta Austmann Bjarnadóttir stjórnmálafræðingur og lögfræðingur hjá Þjóðskrá.
Rætt um loftslagsmál, stjórnmál og stjórnmálamenningu, framtíðarsýn ungs fólks o.fl.