Enn er ófært eða illfært víða um land og appelsínugular og gular veðurviðvaranir í gildi nema á suðvesturhorninu. Snjóflóð féll úr Eyrarhlíð síðdegis og hættustig vegna snjóflóða er á Ísafirði. Andri Yrkill Valsson segir frá.
Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra finnst ástæða til að spyrja um forgangsröðun í rekstri Landspítalans. Hann hafi ekkert séð sem bendi til þess að viðbótarfé dugi til að leysa hnúta á bráðamóttökunni.
Guðrún Lísbet Níelsdóttir, verkefnastjóri fyrir viðbragðsáætlanir Landspítalans, segir að sjúkrahúsið verði að geta tekið á móti slösuðum úr hópslysi þrátt fyrir krefjandi aðstæður á Landspítalanum. Rætt var við hana í Samfélaginu á rás 1.
Íslendingur, sem er grunaður um að hafa orðið sambýlismanni móður sinnar að bana á Spáni um helgina, hefur verið ákærður fyrir manndráp. Beatriz Garcia talsmaður lögreglu staðfestir það.
Breska stjórnin segir ekki koma til greina að heimila Skotum að efna til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði, eins og heimastjórnin hefur farið fram á. Ásgeir Tómasson segir frá.
-----
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum, segir vont ef ekki má benda á það sem fer illa án þess að vera hakkaður í spað. Már lýsti áhyggjum sínum af stöðunni á bráðamóttöku Landspítalans í viðtali við Læknablaðið fyrir tveimur vikum. Hann segir að sér hafi verið misboðið fyrir hönd sjúklinga. Í kjölfar viðtalsins sendu stjórn Læknaráðs spítalans og vaktstjórar hjúkrunar á bráðadeild frá sér ályktun og lýstu samskonar áhyggjum. Staða heilbrigðiskerfisins var rædd á fundi velferðarnefndar Alþingis í dag. Þar var Már meðal gesta. Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður, ræddi við hann fyrir fundinn.
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Samtaka lífeyrissjóða segir að miklar skerðingar almannatrygginga dragi úr tiltrú fólks á lífeyrissjóðakerfinu. Arnar Páll Hauksson ræðir við Þóreyju.
Á þrettándanum, sá Leonardo Hernandez Balbuena sjómaður, fyrsta hval vetrarins við Cape Samanaeyju í Dóminíska lýðveldinu. Hann er greinilega áhugamaður um hvali; tók mynd af sporðblöðku hvalsins og hún gekk svo áfram á samfélagsmiðlum. Hvalaleiðsögumaðurinn, Eva Reznickova deildi henni á fésbókarsíðu sem er helguð hnúfubökum, til eru fjölmargir slíkir hópar. Þar rak Valerie Chosson, lífrræðingur og starfsmaður Hafrannsóknastofnunar augun í myndina. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Valerie.
Umsjónarmaður: Anna Kristín Jónsdóttir, tæknimaður: Ragnar Gunnarsson og Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir stýrði útsendingu í fréttahluta.