Tap Isavía á fyrri hluta ársins nemur hátt í átta milljörðum. Tekjur fyrirtækisins drógust saman um 97% á öðrum ársfjórðungi.
Tilkynningar um hópuppsagnir tæplega 300 manns hafa borist Vinnumálastofnun nú fyrir lok mánaðar.
Talið er mögulegt að fimm skipverjar togara sem er á leið til Seyðisfjarðar séu smitaðir af kórónuveirunni.
Verkefnastjóri á hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi segir að litlar heimtur séu úr bakvarðasveit velferðarþjónustunnar. Fimm starfsmenn eru í sóttkví.
Landsbankinn er stærsti hluthafinn í Icelandair eftir hlutafjárútboð fyrr í mánuðinum, með sjö og hálfs prósents hlut, og Íslandsbanki er þriðji stærsti hluthafinn, með sex og hálft prósent. Gildi lífeyrissjóður kemst upp á milli þeirra með 6,6 prósenta hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair birti í Kauphöllinni. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er fjórði stærsti hluthafinn með rúmra sex prósenta hlut og Brú, lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, sá fimmti með tæpra fimm prósenta hlut.
Foreldrar eiga rétt á að fá greidd laun á meðan þeir annast börn í sóttkví. Smitist börnin fellur þessi réttur úr gildi.
Flugvirkjar sem starfa hjá Landhelgisgæslunni hafa boðað verkfall í lok næsta mánaðar.
Nýr meirihluti í Múlaþingi vill að Björn Ingimarsson bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði verði bæjarstjóri nýja sveitarfélagsins.
Flestir eru sammála um að fyrstu kappræður frambjóðendanna í bandarísku forsetakosningunum í nótt hafi verið ómálefnalegar, rætnar og háværar, og hvorugur þátttakandinn hafi grætt á þeim. Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur telur að þær geti helst orðið til þess að fæla óákveðna kjósendur frá kjörstað. Það sé Joe Biden og Demókrötum í óhag. Sigríður Hagalín Björnsdóttir talar við Silju Báru Ómarsdóttur.
Svo getur farið að allsherjarverkföll hefjist í tveimur álverum í byrjun desember. Í álverinu í Straumsvík og álveri Norðuráls á Grundartanga. Atkvæðagreiðsla hefst á föstudaginn meðal starfsmanna Ísals í Straumsvík um að skæruverkföll hefjist 16. október og allsherjarverkfall 1. desember. Arnar Páll Hauksson talar við Kolbein Gunnarsson og Vilhjálm Birgisson.
Eftir fjármálakreppuna 2008, þegar ríkisstjórnir víða um heim tóku á sig skuldir til að bjarga fjármálakerfum landa sinna, var víða tekið á auknum ríkisskuldum með miklum niðurskurði. En það er röng nálgun að líta á opinberar skuldir líkt og skuldir fyrirtækja eða heimila, segja hagfræðingar eins og Stephanie Kelton. Ef ríki skuldar hefur einhver fengið fé og þá skiptir öllu að féð sé vel nýtt, ekki hvort skuldirnar vaxi. Sigrún Davíðsdótti