Spegillinn 16, júní 2020
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Sóttvarnalæknir segir að smit dagsins í dag sé bakslag miðað við þróun faraldursins hérlendis undanfarið. 860 eru væntanlegir til Íslands í gegnum Keflavíkurflugvöll í dag en mikilvægt sé að þau haldi sig í sóttkví þar til niðurstaða úr skimun er ljós.
Dómarareynsla úr Landsrétti hafði áhrif á hæfnismat umsækjenda um stöðu landsréttardómara. Sú reynsla byggði á fyrri skipun umsækjendanna í Landsrétt sem Mannréttindadómstóll Evrópu taldi ekki standast mannréttindasáttmála Evrópu.
Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að alltaf megi búast við sveiflum í nytjastofnum sjávar. Því sé það ekki áfall þó Hafrannsóknastofnun leggi til að dregið verði úr þorskveiðum.
Aldrei í sögu Háskóla Íslands hafa borist fleiri umsóknir í hjúkrunar-, leikskólakennara- og tæknifræðinám.
Skapandi greinar eins og tölvuleikir hafa skilað Finnum gríðarlegum verðmætum.
Hnífsstunguárás í Reykjavík í gærmorgun er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Maðurinn sem réðist á konu með hnífi hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til þrettánda júlí.
Félag prófessora við ríkisháskóla mótmælir harðlega því sem það kallar pólitísk afskipti fjármála- og efnahagsráðuneytisins af ráðningu ritstjóra hagfræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review sem norræna ráðherranefndin gefur út.
Hafrannsóknarstofnun hefur hækkað ráðlagðan heildarafla grásleppu.
Háskólinn á Akureyri kann að þurfa að hafna allt að helmingi þeirra sem sótt hafa um nám við skólann í haust komi ekki til aukin fjárveiting frá ríkinu.
Lengri umfjöllun:
Þetta er ekki áfall. Við eigum alltaf að búast við því að það geti orðið sveiflur í nytjastofnum sjávar. Þetta eru viðbrögð Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, við því að Hafrannsóknarstofnun leggur til að dregið verði úr þorskveiðum sem nemur 15 þúsund tonnum á næsta fiskveiðiári. Þetta er í fyrsta sinn í 11 ár sem stofnunin leggur til að dregið verði úr þorskveiðum. Guðmundur Þórðarson fiskifræðingur hjá Hafó segir að ástæðan fyrir sex prósenta skerðingu þorsveiða sé að vísitala milli árganga sé lélegri en talið var. 2016 árgangurinn var lélegur og gert var ráð fyrir því en ekki að fallið yrði svona mikið og raun ber vitni. Arnar Páll Hauksson talaði við Guðmund og Heiðrúnu.
Helmingur ljósmæðra hættir á næstu tíu til fimmtán árum og það er farið að bera á skorti. Hugsanlega er nýliðunin þó aðeins að glæðast. Áslaug Valsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Ísland