Rúmlega þriðjungur þingmanna segist hafa orðið fyrir einelti og kynbundinni áreitni á starfstíma sínum á Alþingi. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis segir niðurstöður könnunar sem gerð var á starfsumhverfi þingmanna og starfsmanna sláandi. Freyr Gígja Gunnarsson ræddi við hann.
Utanríkisráðherra Ítalíu segir ekkert því til fyrirstöðu að erlendir ferðamenn verji sumarfríinu á ítölskum ströndum eða fjallaþorpum og njóti matargerðarlistar heimamanna. Ásgeir Tómasson sagði frá.
Fundi í kjaradeilu flugfreyja og Icelandair sem átti að hefjast klukkan 17 var frestað að beiðni annarar samninganefndarinnar segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari sem segist ræða við deilendur síðar í kvöld og ákveða hvort og hvenær boðað verður til nýs fundar.
Frumvarp sem felur í sér stofnun nýs dómstóls, endurupptökudóms, var samþykkt á Alþingi síðdegis. Hann kemur í stað endurupptökunefndar og sker úr um hvort heimilað er að taka dómsmál upp á ný. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fagnar lögunum. Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírötum telja lögin réttarbót en sakna þess að ekki sé í þeim ákvæði um gjafsókn.
Ísafjarðarbær vill að ríkið greiði 40 milljóna kostnað vegna snjóflóðanna sem féllu í byrjun árs, Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir að stærsti hluti kostnaðarins sé vegna hreinsunar. Anna Lilja Þórisdóttir ræddi við hann.
Hverfisráð Oddeyrar leggst gegn áformum um byggingar á Gránufélagsreit á Oddeyri á Akureyri, þrátt fyrir að hámarkshæð húsa hafi verið lækkuð úr ellefu hæðum í átta. Núgildandi skipulag, sem leyfir allt að fjögurra hæða hús, sé vænlegri kostur. Bjarni Rúnarsson ræddi við Berglindi Ósk Óðinsdóttur, formann ráðsins.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins segir að öryrkjar hafi gleymst við gerð kjarasamninga. Hún telur æskilegt að örorkubætur hækki í 400 þúsund krónur á mánuði. Arnar Páll Hauksson tók saman og ræddi við Þuríði, Drífu Snædal ASÍ, Sonju Ýr Þorbergsdóttur BSRB, Þórunni Sveinbjarnardóttur BHM og Ragnar Þór Pétursson KÍ.
Eftir því sem gróðursæld vex á Íslandi eykst hætta á gróðureldum. Járngerður Grétarsdóttir plöntuvistfræðingur segir að það eigi eftir að taka landið sem brann í nótt langan tíma að jafna sig. Veðurstofan hefur lengi viljað auka vöktun á gróðureldum en það hefur strandað á fjármagni. Arnhildur Hálfdánardóttir tók saman.
Brexit er ekki búið og nú er það smitað af COVID-19 veirunni. Sigrún Davíðsdóttir sagði frá.