Caliphate var eitt stærsta og verðlaunaðasta rannsóknarblaðamennskuhlaðvarp undanfarinna ára. Þar sökkti stjörnublaðakona New York Times, Rukmini Callimachi, sér ofan í sögu og starf Íslamska ríkisins, Isis, en hryggjarstykki þáttanna var opinskátt viðtal við ungan kanadískan mann sem hafði tekið þátt í starfi hryðjuverkasamtakanna. Viðtalið veitti ótrúlega innsýn í starf Isis og hugsunarhátt meðlima. Ótrúlega já, því nú er komið í ljós að frásögnin var að öllum líkindum uppspuni frá rótum. New York Times hefur beðist afsökunar, skilað verðlaunum og Callimachi færð til í starfi. Við ræðum Kalífat-skandalinn við Gunnar Hrafn Jónsson, fyrrum fréttamann sem hefur sjálfur átt í samskiptum við raunverulega meðlimi Ísis. Svo ætlum við að hika örlítið. Doka smá við og velta fyrir okkur orðunum og hljóðunum sem við notum til að fylla upp í setningar, eða þannig, sko, þú veist, skiluru. Næstu mánudaga munum við fá pistla frá Guðlaugu Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur. Einhverfa verður leiðarstef pistlanna og í þeim fyrsta mun hún ræða um samfélag einhverfra og breytingar í umræðum um einhverfu.