Í meira en tvær aldir hefur ein helsta táknmynd íslensku þjóðarinnar verið ung og fríð kona, faldbúningsklædd Fjallkona. Og frá því um miðja síðustu öld hafa skrautklæddar fjallkonur flutt ávarp á þjóðhátíðardaginn. Fjölbreytileiki samfélagsins hefur aukist undanfarna áratugi og samhliða því hafa fjallkonurnar orðið fjölbreyttari í útliti og uppruna. En enn hefur það aldrei gerst að sú manneskja sem valin er fjallkonan í Reykjavík hefur verið karlmaður. Snorri Ásmundsson, listamaður, vill breyta þessu, og í gær hafði lögregla afskipti af Snorra vegna fjallkonuávarps hans á Austurvelli. Við ræðum við Snorra um gjörninginn.
Davíð Roach Gunnarsson segir frá hljómsveitinni Shabazz Palaces og nýju lagi frá þessari tilraunkenndu rappsveit, Mega Church.
Og við förum líka í annars konar í kirkju. Eða raunar kemur kirkjan til okkar. Þeir bræður Baldur og Snæbjörn Ragnarssynir taka sér far með Lestinni í dag en þeir hafa stofnað nýjan söfnuð, Hljóðkirkjuna, sem er þó ekki trúfélag heldur hlaðvarpsstöð.
Fanney Benjamínsdóttir hefur verið að velta fyrir sér verum sem standa kyrrar í borgarmyndinni, steinrunnar, allan ársins hring. Hvaða þýðingu hafa styttur af breiskum hetjum í samtímanum?