Í Lestinni í dag verður rætt við ljósmyndarann Golla, en í síðustu viku hlaut hann viðurkenningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands fyrir mynd ársins 2019, mynd tekin á Vatnajökli í vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands. Við hittum Golla og ræðum jökulinn, loftslagsbreytingar og vandamálin sem blaðaljósmyndun stendur frammi fyrir á tímum.
Við minnumst tónlistarmannsins Florians Schneider sem var einn af stofnendum þýsku rafpoppsveitarinnar Kraftwerk. Áhrif hljómsveitarinnar verða seint ofmetin, á danstónlist jafnt sem rapp og rokktónlist - Davíð Roach Gunnarsson er að minnsta kosti sannfærður um mikilvægi Kraftwerks.
Víða um heim eru kvikmyndahús lokuð, kvikmyndahátíðum hefur verið frestað, og kvikmyndaver hafa lagst í dvala. Framboðið á nýjum myndum er því umtalsvert minna en venjulega, eða í rauninni nánast ekkert. Þetta hefur leitt til þess að kvikmyndir sem myndu yfirleitt ekki ná til margra verma nú topp vinsælda- og sölulista víða um heim. Við kynnum okkur óvenjulega miðasölulista.
Oft er sagt að af brenndum áfengistegundum sé koníak „göfugasta“ tegundin. Það er franskt og fínt, það rennur ljúflega niður með góðum osti eða dökku súkkulaði og það er dýrt og flókið í framleiðslu. Það er líka uppáhaldsdrykkur þrjótarappara og þeir eru duglegir að láta vita af því.