Kosið er til þings Norður-Íra í dag og í fyrsta sinn í meir en aldargamalli sögu landshlutans eru möguleikar á því að lýðveldissinnar, sem vilja sameinast Írska lýðveldinu, verði stærsti flokkur á þingi. Hingað til hafa þeir flokkar sem vilja viðhalda sambandinu við Bretland verið í meirihluta á norður-írska þinginu. Sinn Fein, stærsta flokki lýðveldissinna, er spáð góðu gengi. Flokkurinn hefur þó ekki lagt neina sérstaka áherslu á stöðu Norður-Írlands, kosningabaráttan hefur meira fjallað um daglegt líf, slæmt heilbrigðiskerfi og verðbólgu. Sambandssinnar í Lýðræðislega sambandsflokknum, DUP, hafa lagt mesta áherslu á að losna verði við svokallaða Norður-Írlandsbók í Brexit-samningnum. Í henni er gert ráð fyrir að Norður-Írland verði hluti innri markaðar Evrópusambandsins en jafnframt hluti breska ríkisins, United Kingdom.
Forsætisráðherrar Norðurlanda hittust í Kaupmannahöfn þar sem þeir áttu sameiginlegan fund með Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands. Blaðamannafundur þeirra snerist þó mest um mögulega inngöngu Finna og Svía í NATO. Forsætisráðherrar NATO-ríkjanna Danmerkur, Íslands og Noregs lofuðu að styðja hraða afgreiðslu ákveði Finnar og Svíar að sækja um aðild.